Tæplega 1.000 bílum fargað á mánuði

Bílar á leið í brotajárn.
Bílar á leið í brotajárn. mbl.is/Árni Sæberg

Fyrstu átta mánuði ársins var tæplega 7.900 bílum fargað, eða 984 bílum að meðaltali á mánuði. Það er heldur meira en sömu mánuði í fyrra.

Allt árið í fyrra var tæplega 11.400 bílum fargað sem er mikil fjölgun frá árunum þar á undan. Búast má við að svipað mörgum bílum verði fargað í ár.

Skráður eigandi fær 20 þúsund krónur fyrir bíl sem er afhentur til förgunar og afskráður. Gjaldið hefur ekki breyst í mörg ár, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.

Bílgreinasambandið vill hækka gjaldið umtalsvert til þess að skapa hvata til hraðari endurnýjunar bílaflotans sem sambandið telur að sé a.m.k. tveimur árum of gamall.

Meðalaldur þeirra bíla sem fargað hefur verið síðustu þrjú árin er um 17 ár. Er þetta um þremur árum hærri aldur en var á árunum 2007 til 2010.

María Jóna Magnúsdóttir framkvæmdastjóri segir meðalaldur bílaflotans vera rúm 12 ár, sem sé með því hæsta í Evrópu. Telur hún að meðalaldurinn þyrfti að vera í kringum 10 ár ef vel ætti að vera. „Við þurfum því að spýta í lófana og auka förgun til að hraða endurnýjun bílaflotans. Þegar eðlilegum hluta flotans er fargað kaupa eigendurnir væntanlega nýrri bíla og einhverjir kaupa nýja bíla og þannig rúllar þetta áfram,“ segir María.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert