Til skoðunar að fækka flugferðum

Til skoðunar er að hætta notkun á plasthlífum fyrir skó og að fækka flugferðum starfsmanna um allt að 10% til að draga úr umhverfisspori á Landspítalanum. Á þessu ári hafa tvær aðgerðir skilað því að spítalinn losar um 1.000 tonnum minna af koltvísýringi á ári en þær fólust í að hætta að nota olíuketil við Hringbraut sem knúði tæki í eldhúsi og dauðhreinsun auk þess sem settur var upp eyðingarbúnaður fyrir glaðloft. Sú aðgerð ein og sér skilaði um 24% minna kolefnisspori þar sem gasið er afar öflug gróðurhúsategund.     

Í myndskeiðinu er rætt við Huldu Steingrímsdóttur, umhverfisstjóra spítalans, um áherslur í umhverfisstefnu spítalans en frá árinu 2012 hafa markviss skref verið tekin til að bæta umhverfisspor spítalans sem er einn stærsti vinnustaður landsins.

Í dag eru ríflega 30% af úrgangi spítalans endurunninn sem þykir nokkuð gott fyrir spítala og Hulda bendir á að þar standi hann sig betur en t.a.m. Karolinska sjúkrahúsið í Stokkhólmi en árið 2016 var spítalinn einmitt tilnefndur til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs.

Samgöngumálin eru stór þáttur í rekstrinum og byrjað er að gera tilraunir með að nota rafhjól og rafhlaupahjól, sem staðsett eru í nýjum skrifstofum í Skaftahlíð, til að koma fólki á milli staða en spítalinn er nú í 100 byggingum á 17 stöðum og samgöngumál því talsvert umfangsmikil. Samkvæmt gögnum spítalans nýta um 33% starfsmanna vistvænar samgöngur til og frá vinnu þegar best lætur en markmiðið er að hækka það hlutfall upp í 50%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert