Stærsta skemmtiferðaskip sumarsins, MSC Meraviglia, er væntanlegt til Reykjavíkur næstkomandi laugardag. Það hefur komið hingað áður og er jafnframt stærsta farþegaskip sem komið hefur til hafnar á Íslandi.
Um sannkallað risaskip er að ræða, 167.900 brúttótonn. Það er nýlegt, smíðað 2017. Segja má að þarna sé á ferðinni siglandi bæjarfélag, því um borð eru 6.500 manns, 4.500 farþegar og 2.000 manna áhöfn. Samkvæmt áætlun á MSC Meraviglia að leggjast að Skarfabakka í Sundahöfn á laugardaginn klukkan 13. Tímasetningin gæti breyst og því er áhugasömum bent á að fylgjast með komutímanum á www.faxafloahafnir.is.
Senn líður að lokum vertíðar skemmtiferðaskipa þetta sumarið. Sex skipakomur eru skráðar til Reykjavíkur í október og er síðasta skipið, Astoria, væntanlegt 29. október.
Á vef Faxaflóahafna kemur fram að skipakomur til Reykjavíkur og Akraness í sumar verði 195 talsins. Skipafjöldinn er 84, enda koma sum skipanna oft til hafnar þar. Samanlagður fjöldi farþega og áhafna er rúmlega 266 þúsund. sisi@mbl.is