Dregið úr fjölgun öryrkja frá 2017

Frá aldamóta og fram til 2008 var fjölgunin mest í …
Frá aldamóta og fram til 2008 var fjölgunin mest í greiningum á grundvelli stoðkerfisvandamála og áverka en frá 2008 til 2018 var fjölgunin mest í greiningum á geðröskunum og af öðrum ástæðum. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Nýjustu gögn benda til þess að hægt hafi á fjölgun örorkulífeyrisþega undanfarin tvö ár þrátt fyrir að þeim hafi fjölgað umtalsvert frá aldamótum sem og á milli 2008 og 2019 þegar þeim fjölgaði frá því að vera 7% af mannfjölda á vinnualdri í 7,8%. Geðraskanir eru fjölmennasti flokkur greininga til grundvallar 75% örorku- og endurhæfingarmats.

Stærstan hluta fjölgunar örorkulífeyrisþega má rekja til kvenna 50 ára og eldri og eru konur á hverjum tíma 60% af örorkulífeyrisþegum. Munurinn á milli karla og kvenna eykst með aldri, sem bendir til þess að stefnumótun þurfi til þess að taka á því sem er ólíkt í lífshlaupi karla og kvenna.

Þetta kemur fram í skýrslu Öryrkjabandalags Íslands um Fjöldaþróun örorkulífeyrisþega á Íslandi 2008 til 2030. 

Frá janúar 2017 hefur fjöldi örorkulífeyrisþega svo gott sem staðið í stað við 18 þúsund einstaklinga, en hlutfall hópsins af mannfjölda á vinnualdri hefur hins vegar lækkað úr 8,2% í 7,8% og þannig virðist hafa dregið úr fjölgun þeirra.

Fjöldi greininga vegna geðraskana eykst

Í niðurstöðum skýrslunnar segir að nokkuð hafi verið rætt um fjölgun örorkulífeyrisþega meðal ungra karla, en hlutfall þeirra á meðal 20 til 24 ára hækkaði um 0,9% frá 2009 til 2018. Það sé nokkur hækkun en af mjög lágum grunni, auk þess sem hækkun hafi verið meiri á meðal kvenna á aldrinum 35 til 44 ára og 50 til 59 ára, sem hafi þar að auki lagst ofan á hærri grunnprósentu. 

Frá aldamóta og fram til 2008 var fjölgunin mest í greiningum á grundvelli stoðkerfisvandamála og áverka en frá 2008 til 2018 var fjölgunin mest í greiningum á geðröskunum og af öðrum ástæðum.

Þá segir í skýrslunni að spálíkön um fjölda örorkulífeyrisþega út frá mannfjöldaþróun og breytingum á aldurssamsetningu samfélagsins eru ónákvæm og misvísandi. Til þess að þau séu gagnleg þurfi þau að byggja á meiri og betri upplýsingum, svo sem þróun brottfalls af örorkulífeyri og mismun áhættuþátta á milli kynslóða og á milli karla og kvenna.

Þetta eigi einnig við um áætlanir um þróun kostnaðar hins opinbera og samfélagsins af örorku. „Þá er einnig skynsamlegt að stefnumótun til að draga úr örorku á Íslandi byggist á haldgóðri þekkingu á sömu þáttum, þannig að hægt sé að fyrirbyggja örorku og bjóða upp á áhrifarík úrræði til endurhæfingar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert