Greiðari samgöngur og bætt umferðaröryggi

Fulltrúar ríkisvaldsins og sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu undirrituðu samkomulag um uppbyggingu samgönguinnviða og almenningssamgangna á svæðinu næstu fimmtán árin í Ráðherrabústaðnum við Tjarnagötu í Reykjavík í dag.

Fram kemur í fréttatilkynningu að um sé að ræða tímamótasamkomulag um metnaðarfulla uppbyggingu í þessum efnum en sveitarfélögin sem um ræðir eru Garðabær, Hafnafjörður, Kópavogur, Mosfellsbær, Reykjavík og Seltjarnarnes. Gert er ráð fyrir að fjárfest verði fyrir 120 milljarða króna. Ríkið muni leggja fram 45 milljarða, sveitarfélögin 15 milljarða og að sérstök fjármögnun standi undir 60 milljörðum.

Gert er ráð fyrir að 52,2 milljarðar fari í stofnvegi.
Gert er ráð fyrir að 52,2 milljarðar fari í stofnvegi. mbl.is/​Hari

Sérstök áhersla á umferðaröryggi og samvinnu

„Samkomulagið felur í sér sameiginlega framtíðarsýn og heildarhugsun fyrir skipulagssvæðið. Markmiðið er að auka öryggi, bæta samgöngur fyrir alla ferðamáta og minnka tafir, stórefla almenningssamgöngur og draga úr mengun af völdum svifryks og losun gróðurhúsalofttegunda til að standa við loftslagsmarkmið stjórnvalda og sveitarfélaga.“

Markmið samkomulagsins eru fjórþætt: Tryggja greiðari samgöngur, minnka tafir og …
Markmið samkomulagsins eru fjórþætt: Tryggja greiðari samgöngur, minnka tafir og styðja við fjölbreyttari ferðamáta, byggja upp sjálfbært kolefnishlutlaust borgarsamfélag með bættum almenningssamgöngum, orkuskiptum og breyttum ferðavenjum, leggja sérstaka áherslu á umferðaröryggi og að draga stórlega úr slysum á fólki og að tryggja samvinnu og sameiginlega sýn á verkefnið. mbl.is/​Hari

Markmið samkomulagsins eru fjórþætt: Tryggja greiðari samgöngur, minnka tafir og styðja við fjölbreyttari ferðamáta, byggja upp sjálfbært kolefnishlutlaust borgarsamfélag með bættum almenningssamgöngum, orkuskiptum og breyttum ferðavenjum, leggja sérstaka áherslu á umferðaröryggi og að draga stórlega úr slysum á fólki og að tryggja samvinnu og sameiginlega sýn á verkefnið.

Fara á í framkvæmdir í samgöngumálum á næstu 15 árum sem annars tæki 50 ár að klára á núverandi framkvæmdahraða að því er segir í tilkynningunni. Fram kemur að sérstök fjármögnunin upp á 60 milljarða verði tryggð með endurskoðun gjalda af ökutækjum og umferð í tengslum við orkuskipti eða með beinum framlögum af sölu á eignum ríkisins.

Gert er ráð fyrir að 49,6 milljarðar í innviði Borgarlínu …
Gert er ráð fyrir að 49,6 milljarðar í innviði Borgarlínu og almenningssamgöngur. mbl.is/​Hari

Sérstakt félag stofnað um framkvæmdirnar

Gert er ráð fyrir að 52,2 milljarðar fari í stofnvegi, 49,6 milljarðar í innviði Borgarlínu og almenningssamgöngur, 8,2 milljarðar í göngu- og hjólastíga, göngubrýr og undirgöng og 7,2 milljarðar í bætta umferðarstýringu og sértækar öryggisaðgerðir. Þá verði þegar í stað ráðist í að innleiða stafræna umferðarstýringu á höfuðborgarsvæðinu.

Enn fremur segir að félag í eigu ríkis og sveitarfélaga verði stofnað um framkvæmdirnar og fjármögnun þeirra. Ríkið skuldbindi sig til að leggja uppbyggingarland á Keldum inn í félagið og ábati af þróun þess muni renna til uppbyggingar samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

Þá segir að áform séu um að taka upp sértæka gjaldtöku víðar á landinu til að fjármagna stærri samgönguframkvæmdir og rekstur jarðganga. Dæmi um þetta séu tvöföldun Hvalfjarðarganga, Sundabraut, brú yfir Ölfusá, brú yfir Hornafjarðarfljót, nýr vegur yfir Öxi ásamt láglendisvegi um Mýrdal og jarðgöngum í gegnum Reynisfjall.

mbl.is/​Hari
Markmiðið er að auka öryggi, bæta samgöngur fyrir alla ferðamáta …
Markmiðið er að auka öryggi, bæta samgöngur fyrir alla ferðamáta og minnka tafir. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert