Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, segir það mikið fagnaðarefni að verið sé að koma á fót samkomulagi um bættar samgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Hún segir þó óskýrt hvaðan fjármagn til verkefnisins eigi að koma og að tryggja þurfi að ekki verði lagðir tvöfaldir skattar á borgara.
„Ég fagna því að það er komið samkomulag á milli ríkis, borgarinnar og bæjarfélaganna hér á höfuðborgarsvæðinu. Það er mikilvægt að ríkisstjórnin sé að viðurkenna það skipulag og þá sýn sem sveitarfélögin hafa verið að setja fram og að það sé verið að horfa til langs tíma eins og með borgarlínunna,“ segir Þorgerður í samtali við mbl.is.
„Hitt er síðan að það er alveg óljóst ennþá og óklárað á milli ríkisstjórnarflokkanna hvernig eigi að fjármagna hlutina. Við skiljum strax að sumir stjórnarþingmenn eru óánægðir með það að eigur ríkisins fari í þetta, á meðan aðrir eru óhressir með þá gríðarlegu skattlagningu sem hugsanlega gæti fallið á höfuðborgarsvæðið og nágrannasveitarfélög.“
Fulltrúar ríkisvaldsins og sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu undirrituðu í dag samkomulag um uppbyggingu samgönguinnviða og almenningssamgangna næstu fimmtán árin. Gert er ráð fyrir að fjárfest verði fyrir 120 milljarða króna. Mun ríkið leggja fram 45 milljarða, sveitarfélögin 15 milljarða og loks er gert ráð fyrir að sérstök fjármögnun standi undir 60 milljörðum. Á sú sérstaka fjármögnun að vera tryggð með endurskoðun gjalda af ökutækjum og umferð í tengslum við orkuskipti eða með beinum framlögum af sölu á eignum ríkisins.
„Með fjármögnun á þessu er allt mjög óljóst. Á meðan ekki er farið í gagngera uppstokkun er þetta ekkert annað en tvöföld skattlagning á höfuðborgarsvæðið. Það hefði verið hægt að fara í algjöra uppstokkun á kerfinu í þágu umhverfisins og loftlagsins með því að hækka kolefnisgjöld og fara strax í kílómetragjöld en afleggja þá önnur gjöld á móti svo það sé ekki verið að íþyngja fjölskyldum svona,“ segir Þorgerður.
„Það er jákvætt að verið sé að horfa til framtíðar og að ríkisstjórnin sé að viðurkenna það skipulag sem hefur verið samþykkt hér af borginni og öðrum sveitarfélögum. Hitt er síðan að kosningarloforðin eru algjörlega óútfærð, meðal annars út af ólund á milli stjórnarflokkanna. Þetta er ekki fyrsta málið þar sem það er ekki eining á milli stjórnarflokkanna um leiðir.“
Þá segir Þorgerður það einnig hafa verið vonbrigði að stjórnarandstaðan hafi ekki fengið tækifæri til að eiga aðkomu að gerð samkomulagsins. Um spennandi og nauðsynlegt framtíðarverkefni sé að ræða sem vafalítið er þverpólitísk samstaða um. Í ljósi yfirlýsinga stjórnarflokkanna um bætt samráð við stjórnarandstöðuna og þverpólitískt samstarf á Alþingi sé athyglisvert að stjórnarandstaðan hafi aðeins fengið takmarkaðar upplýsingar um samkomulagið.
„Ríkisstjórnin boðaði að auka samráð við þingið en hefur ekki reynt að sýna neinn samstarfsvilja eða spurt hvort að við eigum ekki að fara í þetta verkefni saman og reyna að komast að niðurstöðu. Ég er alveg sannfærð um að það hefði hjálpað ríkisstjórnarflokkunum sem eiga ennþá eftir að leysa úr þessum málum sín á milli. Við fengum ekki að sjá samstarfssamninginn í gær þó að við hefðum beðið um það. Þetta er ekki einu sinni skötulíki þetta samstarf, það nær ekki svo langt. Þetta er bara tal um betri vinnubrögð en í hverju málinu á fætur öðru eru þau að falla á prófinu.“
Þorgerður segir að bættar samgöngur séu nokkuð sem ekki eigi að vera erfitt að ná pólitískri samstöðu um og furðar sig á að það hafi ekki verið gert.
„Það hafa held ég allir flokkar metnað til þess að búa til og byggja upp framtíðarskipulag fyrir bæði almenningssamgöngur og aðra samgöngumáta. Síðan hefðum við geta talað um það hvernig við eigum að fjármagna þetta.“