Heildarlaun opinberra starfsmanna voru að jafnaði mun hærri á Íslandi en í Danmörku, Noregi og Svíþjóð á síðasta ári samkvæmt útreikningum sem Samtök atvinnulífsins hafa birt.
Grunnlaun og regluleg laun voru hins vegar svipuð á Íslandi og í Danmörku og Noregi en um 40% hærri en í Svíþjóð.
Byggt er á launaupplýsingum hagstofa Norðurlandaríkjanna og meðalmánaðarlaun opinberra starfsmanna borin saman eins og þau voru í fyrra. Launin voru umreiknuð í íslenskar krónur á meðalgengi krónunnar gagnvart gjaldmiðlum annarra Norðurlandaríkja á árinu 2018.
„Heildarlaunin voru um 20% hærri á Íslandi en í Danmörku og Noregi og tæplega 70% hærri en í Svíþjóð,“ segir í umfjöllun SA.
Þar kemur einnig fram að meðalheildarlaun háskólamenntaðra sérfræðinga hjá hinu opinbera voru um 15% hærri á Íslandi en í Danmörku og Noregi og rúmlega 50% hærri en í Svíþjóð. Þegar borin eru saman heildarlaun á almenna og opinbera vinnumarkaðinum kemur m.a. fram að hér voru heildarlaun 3% hærri á almennum markaði en hjá hinu opinbera, en 5% hærri í Noregi og 9-10% hærri í Svíþjóð og Danmörku.