Nýdoktor við Rannsóknarsetur Háskóla íslands á Suðurlandi segir varp tjaldsins hafa brugðist algjörlega í ár. Fullorðnir fuglar áttu í miklum erfiðleikum með að finna æti fyrir unga sína sökum þurrka og í sumum tilvikum hætti tjaldurinn algjörlega við varp vegna skorts á aðgengi að fæðu.
Verónica Méndez Aragón nýdoktor, hefur varið stórum hluta af vísindaferli sínum hérlendis við að rannsaka vaðfuglinn. Rannsóknir hófust að fullum þunga sumarið 2015 og segir Verónica að um „langversta varpárgang“ tjaldsins á þessu svæði sé að ræða frá því rannsóknir hófust.
„Þetta sumar var gríðarlega þurrt á Suðurlandi og varla kom dropi úr lofti. Við sáum í rannsóknum okkar hvernig fullorðnir fuglar, sem halda til á túnum sunnan lands, áttu í gríðarlegum erfiðleikum með að finna æti fyrir ungana og jafnvel sjálfa sig,“ segir Verónica á vef háskólans.
Að sðgn Verónicu nota tjaldar á Íslandi einkum tvenns konar búsvæði. Annars vegar heldur hluti stofnsins sig í fjörum og á leirum eða lítt grónum svæðum við strendur. Hins vegar heldur hluti stofnsins sig í túnum og graslendi og á það einkum við á Suðurlandi. Þar hafi nánast verið um náttúruhamfarir að ræða fyrir tjaldinn í sumar.
„Það var mjög óvenjulegt ástand því það skorti algerlega úrkomu, vatnsborð varð þannig mjög lágt í tjörnum og skurðum, og tjaldurinn gat hvergi grafið sig í gegnum grjótharðan jarðveginn, hann var svo þurr,“ segir Verónica.
„Þetta er langversti varpárangur tjaldsins á þessu svæði frá því við hófum rannsóknir okkar árið 2015. Strandfuglarnir á hinn bóginn, á Norðurlandi vestra og í Hvalfirði, stóðu sig afar vel eins og í öðrum árum.“
Verónice og samstarfsmenn hennar segja að í sumum tilvikum hafi tjaldurinn hætt algerlega við varp þar sem hann hafði ekki aðgengi að fæðu og á svæðum inn til landsins þar sem tjaldar reiða sig helst á ánamaðka, hafi ungadauði verið mikill í þurrkunum í sumar.