62% svarenda sem þátt tóku í skoðunarkönnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands sem lýtur að endurskoðun stjórnarskrárinnar eru frekar hlynntir eða mjög hlynntir takmörkunum á því hversu lengi forseti geti setið í embætti.
Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, forstöðumaður Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands, og Jón Ólafsson prófessor kynntu könnunina í Ráðherrabústaðnum í dag. Könnunin er fyrsta skrefið í umfangsmeiri rannsókn. Svarendur í könnuninni voru alls 2165.
27% svarenda eru óánægðir eða frekar óánægðir með núgildandi stjórnarskrá. 37% svarenda eru ánægðir eða mjög ánægðir með hana en 36% segjast hvorki ánægðir né óánægðir.
58% svarenda hafa litla eða enga þekkingu á stjórnarskránni og 42% nokkra eða mikla þekkingu á henni.
Svarendur vildu helst að ákvæði um dómstóla, mannréttindi og kjördæmaskipan og atkvæðajafnvægi væru endurskoðuð eða um þau fjallað. Hvað varðar ný efnisatriði í stjórnarskránni vildu flestir fá þar inn efnisatriði um náttúruauðlindir og umhverfismál.
65% svarenda vilja að skýrari rammi verði settur um þátttöku Íslands í alþjóðasamstarfi með viðeigandi breytingum á stjórnarskrá.
35% svarenda vilja að tekið verði upp annað kosningakerfi en einfalda meirihlutakosningu í forsetakosningum. 65% vilja að áfram verði stuðst við einfalda meirihlutakosningu.
Þá eru flestir svarenda eða 75% sem telja tveggja umferða kosningakerfi sem tryggir að forseti hafi meirihluta atkvæða með því að kosið sé aftur á milli tveggja efstu frambjóðendanna ef enginn frambjóðandi nær meirihluta atkvæða í fyrri umferð best ef kosningakerfinu yrði breytt.
Eins og áður sagði er meirihluti svarenda fylgjandi takmörkunum á því hversu lengi forseti geti setið í embætti. 23% svarenda eru hvorki hlynnt né andvígur því en 14% svarenda eru frekar eða mjög andvíg.
Flestir, eða 40% svarenda, telja að forseti ætti að hámarki að geta setið í þrjú kjörtímabil eða meira ef takmarkanir yrðu á annað borð teknar upp.
Í samtali við mbl.is tekur Jón fram að skoðanakönnunin sé fyrsta skref, ekki lokaskref.
„Nú vitum við hvernig ákveðin staða er þegar fólk svarar svona spurningakönnun og hefur kannski ekki kynnt sér málið eða hefur lítinn áhuga o.s.frv. Aðalatriðið í samræðunni er næsta skref. Það er ákveðinn hópur sem er lýsandi fyrir úrtakið sem mun taka þátt í umræðufundi 9.-10. nóvember og í framhaldi af þessu umræðufundi er gerð önnur skoðanakönnun. Það sem er áhugavert í ferlinu er hvorki fyrri né seinni skoðanakönnunin heldur það sem gerist á milli þeirra tveggja. Þá sér maður hvernig skoðanir fólks breytast þegar það fer að kynna sér hlutina og fleira,“ segir Jón.