Mun hafa raunveruleg áhrif á stjórnarskrá

Fundur í Ráðherrabústaðnum um stjórnarskrána.
Fundur í Ráðherrabústaðnum um stjórnarskrána. mbl.is/Árni Sæberg

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að skoðana­könn­un Fé­lags­vís­inda­stofn­un­ar Há­skóla Íslands sem lýt­ur að end­ur­skoðun stjórn­ar­skrár­inn­ar muni hafa raunveruleg áhrif á breytingar á stjórnarskránni. 

Könnunin var kynnt í ráðherrabústaðnum í dag. „Til þess erum við auðvitað að þessu. Formenn flokkanna hafa fengið kynningu á þessu svo auðvitað mun þetta hafa áhrif á okkar vinnu við inntak stjórnarskrárinnar eða stjórnarskrárbreytinganna sem við vonandi náum samstöðu um að leggja til,“ segir Katrín.

Könnunin er fyrsta skrefið í rannsókn á vilja þjóðarinnar fyrir breytingum á stjórnarskránni. 

Vill nýta aðferðafræðina meira

Katrín segist áhugasöm um að nota sambærilega aðferðafræði í meira mæli.

„Ég er mjög áhugasöm um þessa aðferðafræði almennt í opinberri stefnumótun. Það eru dæmi, til dæmis frá Írlandi, þar sem þessi aðferðarfræði hefur verið nýtt. Til dæmis í breytingum á þungunarrofslöggjöf með mjög góðum árangri. Við munum leggja okkur fram um að láta þetta ganga upp og sjá hvort við við getum ekki notað þessa aðferðafræði í auknum mæli.“

Í könnuninni sagðist minnihluti vera óánægður eða frekar óánægður með núgildandi stjórnarskrá. Spurð hvort þá sé einhver ástæða til að breyta stjórnarskránni segir Katrín:

„Við erum auðvitað búin að leggja upp með það að við viljum gera breytingar á stjórnarskrá en það er mikilvægt að hlusta eftir þeim viðhorfum sem þarna birtast. Þarna sjáum við til dæmis að það er gríðarleg eftirspurn eftir ákvæði um náttúruauðlindir og mikil eftirspurn eftir ákvæði um umhverfisvernd. Þó að fólk sé ekki endilega óánægt hefur það áhuga á að sjá ákveðnar breytingar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka