Samhugur formanna flokkanna lykilatriði

Guðbjörg kynnti niðurstöðurnar í Ráðherrabústaðnum í dag ásamt Jóni.
Guðbjörg kynnti niðurstöðurnar í Ráðherrabústaðnum í dag ásamt Jóni. mbl.is/Árni Sæberg

Breytingar á stjórnarskrá hafa lengi verið til umræðu og hefur vinna sem að þeim kemur áður verið sett af stað en svo einungis nýtt með takmörkuðum hætti. 

„Ég held að það skipti mjög miklu máli að formenn flokkanna séu allir sammála um að taka þátt í þessari vinnu. Það er lykilatriði,“ segir Guðbjörg Andrea Jóns­dótt­ir, for­stöðumaður fé­lags­vís­inda­stofn­un­ar Há­skóla Ísland. 

Hún kynnti í dag könnun sem lýtur að vilja almennings fyrir breytingum á stjórnarskrá ásamt Jóni Ólafssyni, prófessor við Háskóla Íslands. 

„Ég er alltaf að fá þessa spurningu, hvernig mér detti í hug að vinna með stjórnvöldum því þau hafi engan áhuga á því að breyta stjórnarskránni,“ segir Jón. 

Hann tekur Stjórnlagaþing sem dæmi. „Vandamál stjórnlagaþingsins var alltaf þessi tengsl við stjórnvöld því við búum við regluverk sem krefst þess að þingið taki ákvörðun á endanum. Ég held að styrkurinn sé sá að þetta er verkefni stjórnvalda og það er unnið að þessu inni í kerfinu, margir ímynda sér að þá verði breytingarnar ekki jafn róttækar en það sem við erum að reyna að gera er að hjálpa stjórnvöldum að fá sem traustastan skilning á þessum verkefnum og búa til raunverulegan vettvang, borgaralegt samtal sem skilar upplýstum skoðunum.“

Könnunin sýni vilja fyrir breytingum

Guðbjörg segir að könnunin sýni vilja fyrir breytingum. „Ég held að það sé mjög skýrt í könnuninni að fólk vill sjá breytingar á stjórnarskránni en hverjar þær eru getur svolítið breyst í umræðum eða rökræðum.“

Næst eru einmitt áætlaðar umræður. Hluti þeirra sem svöruðu könnuninni mun brátt ræða saman á umræðuvettvangi eftir að hafa kynnt sér málin betur. Þannig reyna rannsakendur að fá upplýstan hóp til þess að segja til um vilja þjóðarinnar. 

„Mörg af þessum hugtökum þekkir fólk ekki, hvað Landsréttur er, hvað þjóðarfrumkvæði er. Þegar fólk hefur sett sig betur inn í málin hefur það meira um þau að segja,“ segir Jón.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka