Samkomulagið ekki kynnt minnihlutanum

Eyþór Arnalds á fundi í borgarstjórn Reykjavíkur.
Eyþór Arnalds á fundi í borgarstjórn Reykjavíkur. mbl.is/​Hari

„Borgarstjóri sá ekki ástæðu til að kynna þetta fyrir þeim fjórum flokkum sem eru í minnihluta. Ekki einu sinni á lokuðum trúnaðarfundi borgarráðs nú í morgun. Fimmtán ára plan án samráðs við helming borgarfulltrúa kann ekki góðri lukku að stýra.“

Þetta segir Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur, á facebook-síðu sinni í dag vegna samkomulags sem til stendur að undirrita síðar í dag um samgöngur á höfuðborgarsvæðinu á milli ríkisstjórnarinnar og sveitarfélaganna á svæðinu.

„Samkomulagið hefur tekið talsverðum breytingum og undirritun frestast vegna ósamkomulags um gjaldtöku og önnur atriði. Niðurstaðan er sú að fjármögnun með gjaldtöku er óútfærð og fer sú heita kartafla í fangið á Alþingi,“ segir Eyþór.

Eyþór Arnalds, oddviti sjálfstæðismanna í Reykjavík.
Eyþór Arnalds, oddviti sjálfstæðismanna í Reykjavík. mbl.is/Arnþór Birkisson

„Það er löngu tímabært að samgöngufé skili sér til Reykjavíkur. Aðeins um 20% hafa skilað sér á höfuðborgarsvæðið á síðustu árum enda samningur um framkvæmdastopp frá 2012. Hér búa yfir 60% landsmanna. Sjálfskipað svelti í samgöngumálum í áratug í boði borgarstjóra er farið að íþyngja landsmönnum öllum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert