Stórkostleg fjárútlát til langs tíma

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er ljóst að þarna eru áformuð stórkostleg fjárútlát ríkisins til mjög langs tíma og þar af leiðandi er mjög undarlegt að þingið skuli ekki hafa meiri aðkomu að því en raun hefur verið,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, á Alþingi í dag þar sem hann gagnrýndi harðlega að stjórnvöld ætluðu í dag að undirrita samkomulag við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu í samgöngumálum án þess að það hefði fyrst verið rætt á Alþingi. Beindi hann máli sínu að Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra.

„Það er margt í þessu máli sem vekur furðu en nú er það nýjast að ráðherrann neitar að afhenda samkomulagið eða drög að því og neitar meira að segja að sýna samgöngunefnd þingsins drögin. Einhverjir þingmenn hafa þó fengið kynningu á þessum áformum í formi einhvers konar auglýsingastofuglærusýningar,“ sagði Sigmundur. Þá gagnrýndi hann ennfremur áform um veggjöld á höfuðborgarsvæðinu í tengslum við samkomulagið sem þýddi skattheimtu á íbúa þess fyrir að aka vegi sem þeir hefðu þegar greitt fyrir.

Spurði Sigmundur hvort Bjarni ætlaði að fjármagna kosningaloforð Samfylkingarinnar um borgarlínu og verja til þess tugum milljarða króna, þá annaðhvort beint af ríkisfé eða með aukagjaldtöku af íbúum höfuðborgarsvæðisins. Spurði hann ennfremur hvort ráðherrann væri reiðubúinn að grípa inn í málið og stöðva það þar til þingið gæti haft aðkomu að málinu og fengið kynningu á samkomulaginu. Bjarni svaraði því til að samkomulagið yrði að sjálfsögðu undirritað með fyrirvara um aðkomu og samþykki Alþingis.

Sagði borgarlínu snúast um fleiri akreinar

Fjármálaráðherra sagði borgarlínu að hans mati snúast um að bæta við aukaakreinum fyrir almenningssamgöngur, hópferðabifreiðar, leigubíla og bifreiðar sem flyttu nokkra einstaklinga. „Miðað við þá umferðarstíflu sem við erum að upplifa í dag held ég að menn ættu að taka því fagnandi að verið sé að fara í sérstakt átak, ráðast í átak til þess að greiða fyrir betri samgöngum í höfuðborginni og í kringum hana.“ Vandinn væri sá að algert framkvæmdastopp hefði verið á svæðinu sem nú ætti að hverfa frá.

„Þetta er einfaldlega hluti af þeirri þróun sem á sér stað, að við tökum lægri gjöld við innflutning á ökutækjum. Við munum sjá í framtíðinni færri bíla fara á eldsneytisstöðvar og taka með þeim hætti þátt í að greiða fyrir framkvæmdum í samgöngukerfinu okkar, þ.e. eldsneytisgjöldin munu gefa eftir sem gjaldstofn. Þetta eru bara spennandi tímar og ekkert að óttast í því. Í þessu máli er ekkert annað fram undan en betri framtíð, greiðari samgöngur, minni umferðartafir, betri almenningssamgöngur, fleiri hjólastígar og betra samfélag,“ sagði Bjarni enn fremur.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert