Bjarni Benediktsson, fjármála- efnahagsráðherra, vonast til að sala ríkisins á Íslandsbanka geti hafist á næstu vikum. Fram kom í tíufréttum RÚV að Bjarni vill láta á það reyna hvort ríkisstjórnin fái tillögu frá Bankasýslu ríkisins og geti í framhaldinu lagt fyrir þingið áætlun um hvernig staðið verði að sölunni.
Hugmyndir þess efnis að sameina Arion banka og Íslandsbanka voru fyrirferðarmiklar í fjölmiðlaumfjöllun í sumar og þá sagði Bjarni tvennt vegast á í því máli. „Annars vegar er það krafan um að við getum rekið hér skilvirkt bankakerfi, þar sem kostnaði er haldið í lágmarki og við getum aukið hagræðingu í fjármálakerfinu til hagsbóta fyrir viðskiptavini, heimili og fyrirtæki. En hins vegar eru það samkeppnisleg álitamál,“ sagði Bjarni í samtali við Morgunblaðið í lok júlí.
Miklar og hraðar breytingar hafa orðið á fjármálaumhverfi heimsin og hafa íslensk fjármálafyrirtæki þurft að bregðast við, meðal annars með uppsögnum.
Í fréttum RÚV í kvöld spurði Bjarni hversu raunhæft það væri að treysta á þriggja banka samkeppni og átti hann þá við Íslandsbanka, Arion banka og Landsbankann.
„Það hafa komið fram sjónarmið um að við ættum að skoða sameiningu á bönkunum, sem flestir mundu telja í dag að væri andstætt samkeppnislögunum, en við höfum enn ekki stigið það skref. Og í augnablikinu erum við að einblína á að losa um eignarhald ríkisins og hitt verður áfram í skoðun,” sagði Bjarni.