Samkvæmt nýrri samantekt Eurostat, sem tekin var saman í tilefni Evrópska tungumáladagsins í gær, er enskan allsráðandi í tungumálakennslu í grunnskólum Evrópu.
Skipar Ísland sér í hóp þjóða þar sem enska er kennd í efri bekkjum grunnskólans, eða á unglingastiginu, í 95-100% tilvika. Á Íslandi er hlutfall enskunnar 99,6% en 100% í löndum á borð við Danmörk og Svíþjóð. Í flestum löndum er miðað við tölur um 8-10. bekk grunnskólanna og byggir samantekt Eurostat á tölfræði frá árinu 2017.
Þegar komið er upp í framhaldsskólana bætast fleiri tungumál við og hlutfall enskunnar minnkar í flestum löndum. Þannig er enska kennd í 58,9% tilvika í framhaldsskólum hér á landi, þýska með 17,3% og danska 26,8%. Ísland er í algerri sérstöðu í Evrópu þegar kemur að dönskunni, sem kennd er í 96% grunnskóla í eldri bekkjunum og 26,8% í framhaldsskólunum. Er Ísland eina landið í Evrópu utan Danmerkur sem kennir dönsku í grunnskóla. Í framhaldsskólum Svíþjóðar er hlutfall dönskunnar 1%.
Þýska er nokkuð áberandi í dönskum grunnskólum, eða 76% á unglingastiginu og 17% í framhaldsskólum. Á Íslandi er hlutfall þýskunnar 2,3% á unglingastigi og 17,3% í framhaldsskólum, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.