Fleiri ánægð með stjórnarskrá

Katrín Oddsdóttir og Jón Ólafsson.
Katrín Oddsdóttir og Jón Ólafsson. mbl.is/​Hari

Einungis 8% þeirra sem tóku þátt í skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands, sem lýtur að endurskoðun stjórnarskrárinnar, eru mjög óánægð með gildandi stjórnarskrá.

Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, forstöðumaður Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands, og Jón Ólafsson prófessor kynntu könnunina í Ráðherrabústaðnum í gær. Könnunin er fyrsta skrefið í umfangsmeiri rannsókn. Svarendur í könnuninni voru alls 2.165. Þá sögðust 19% svarenda vera frekar óánægð með núverandi stjórnarskrá og því voru 27% svarenda óánægð eða frekar óánægð með gildandi stjórnarskrá. Þá voru 37% svarenda ánægð eða mjög ánægð með hana en 36% segjast hvorki ánægð né óánægð.

Svarendur vildu helst að ákvæði um dómstóla, mannréttindi og kjördæmaskipan og atkvæðajafnvægi væru endurskoðuð eða um þau fjallað. Hvað varðar ný efnisatriði í stjórnarskránni vildu flestir fá þar inn ákvæði um náttúruauðlindir og umhverfismál. Þá voru 62% svarenda sem tóku þátt í könnuninni frekar hlynnt eða mjög hlynnt takmörkunum á því hversu lengi forseti Íslands geti setið í embætti.

„Hálfgerð markleysa“

Spurð hvernig það horfi við Stjórnarskrárfélaginu hversu fáir eru óánægðir með núverandi stjórnarskrá segir Katrín Oddsdóttir, formaður félagsins, að spyrja hefði átt um afstöðu til nýju stjórnarskrárinnar.

„Það segir mér í raun og veru ótrúlega lítið. Það sem ég sé þarna er að langstærstur hluti svarenda er í raun óákveðinn. Þar sem yfirvöld og þeir sem standa að könnuninni eru ekki að spyrja um afstöðu til nýju stjórnarskrárinnar finnst mér þetta í raun og veru ekki segja neitt um málið,“ segir Katrín.

„Til þess að geta metið hvert þjóðin vill fara með þetta mál hefði að sjálfsögðu átt að spyrja um það líka. Eins og margoft hefur komið fram í skoðanakönnunum frá því að þjóðaratkvæðagreiðsla átti sér stað vill fólk fá endurskoðun á stjórnarskránni,“ segir Katrín og á þar við að spurt yrði einnig um afstöðu til nýju stjórnarskrárinnar í skoðanakönnuninni.

„Á meðan því er sleppt finnst mér þetta hálfgerð markleysa,“ segir hún enn fremur í Morgunblaðinu í dag um ánægju og óánægju svarenda með gildandi stjórnarskrá.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert