Hjólreiðafólki gert hátt undir höfði

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri. mbl.is/Arnþór Birkisson

„Kjarni málsins er að í samkomulaginu felst að allt höfuðborgarsvæðið eigi að vera frábært til hjólreiða,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri um umferðarsáttmála ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sem undirritaður var í gær. 

Í sáttmálanum er að finna nákvæmar upplýsingar um lagningu stofnbrauta og borgarlínu en einungis er gefið upp hversu miklu fjármagni verði varið í hjóla- og göngustíga, göngubrýr og undirgöng. Ekki er tiltekið hvar þessir stígar verði lagðir. 

Dagur segir þó að hugmyndir um það séu nokkuð vel mótaðar. 

„Sameiginlegur vinnuhópur Vegagerðarinnar og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu gerði tillögur að stofnstíganeti fyrir höfuðborgarsvæðið. Þær tillögur liggja fyrir en hafa ekki verið fjármagnaðar að fullu fyrr en nú.“

Hjólahraðbrautir á súperstofnstígum

Miðað verður því við þær tillögur þegar göngu- og hjólastígar verða lagðir.

„Þær eru alla vega grunntillögurnar. Ýmsar hugmyndir hafa verið á floti til dæmis varðandi hjólahraðbrautir sem væru svona súperstofnstígar en það hefur hvorki verið tekin afstaða til þeirra né neitt útilokað í þeim efnum. Ég geri ráð fyrir því að við munum setjast niður með Vegagerðinni og velta þessu fyrir okkur núna þegar þessi stóri rammi er kominn á hreint,“ segir Dagur. 

Gert er ráð fyr­ir að fjár­fest verði fyr­ir 120 millj­arða króna. 52,2 millj­arðar eiga að fara í stofn­vegi, 49,6 millj­arðar í innviði borg­ar­línu og al­menn­ings­sam­göng­ur, 8,2 millj­arðar í göngu- og hjóla­stíga, göngu­brýr og und­ir­göng og 7,2 millj­arðar í bætta um­ferðar­stýr­ingu og sér­tæk­ar ör­yggisaðgerðir. 

Dagur segir að þrátt fyrir að fjármunir sem fari í göngu- og hjólastíga séu margfalt minni en þeir sem fari í stofnvegi og almenningssamgöngur sé hjólreiðum gert hátt undir höfði. 

„Reyndar eru hjólreiðaframkvæmdirnar ekki jafn dýrar á hvern metra en þær eru virkilega mikilvægar. Það er enginn samgöngumáti sem hefur vaxið jafn hratt frá aldamótum  og hjólreiðar. Það er fyrst og fremst vegna þess að við höfum verið að gera þær aðgengilegri.“

Sundabraut í öðru ferli

Dagur segir að enn meiri vöxtur í hjólreiðum sé fyrirsjáanlegur.

„Ég hef mikla trú á því að við séum bara rétt að byrja sem hjólafólk. Það sem við sjáum núna í tölunum þegar rafhjólin eru að koma svona sterkt inn á markaðinn er að hópar sem okkur hefur gengið illa að ná til, til dæmis konur, sjá hjólreiðar sem frábæran kost til að ferðast til og frá vinnu.“

Í sáttmálanum er kveðið á um að við endanlega útfærslu framkvæmda verði sérstaklega hugað að greiðri tengingu aðliggjandi stofnbrauta svo sem Sundabrautar inn á stofnbrautir höfuðborgarsvæðisins.

Þó er Sundabraut ekki inni í samkomulaginu sem er gert til ársins 2033. 

„Fyrir ári var gerð viljayfirlýsing um að vinna að þessum höfuðborgarsvæðispakka og vinna að málefnum Sundabrautar væru í sitthvoru ferlinu enda hefur alltaf verið gengið út frá því að Sundabraut verði í einkaframkvæmd,“ segir Dagur um þetta. 

Hann segir að það þýði ekki að framkvæmd Sundabrautar sé frestað til ársins 2033. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert