Í samkomulagi ríkisins og sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um uppbyggingu samgönguinnviða og almenningssamgangna á svæðinu næstu fimmtán árin, sem undirritað var í gær, er níu framkvæmdum af átján flýtt miðað við þær tillögur sem viðræðuhópur um uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu til 2033 hafði kynnt í nóvember í fyrra. Ljúka á vinnu við tvær framkvæmdirnar fyrir lok ársins 2021 og þá er tveimur framkvæmdum vegna borgarlínu flýtt. Annars vegar leiðinni frá Hamraborg í Lindir og hins vegar frá Ártúni í Mosfellsbæ.
Samhliða framkvæmdum samkvæmt samkomulaginu á að leggja á svokölluð flýti- og umferðargjöld, en eins og nafnið gefur til kynna er þeim ætlað að standa straum af hluta kostnaðar við uppbygginguna. Á heimasíðu samgöngusáttmálans er tekið fram að níu framkvæmdum hafi verið flýtt frá fyrri hugmyndavinnu. Þetta eru eftirtaldar framkvæmdir:
Framkvæmdir - Upphaf - Lok
Hér verður aðeins nánar gerð grein fyrir þessum níu framkvæmdum. Þær kostnaðartölur sem eru birtar koma úr tillögum viðræðuhópsins frá því í nóvember 2018. Þær eru til viðmiðunar, en tekið skal fram að sumar hugmyndirnar hafa tekið breytingum, jafnvel talsvert miklum, þannig að ekki er hægt að gera ráð fyrir að þær tölur eigi fullkomlega við í dag.
Þessi kafli er til móts við veitingastaðinn Sprengisand þar sem umfangsmiklar framkvæmdir Veitna fóru fram núna í sumar. Í tillögum viðræðuhópsins kemur ekki fram hvað nákvæmlega lagt er til að gert verði við gatnamótin, en þau eru hins vegar áformuð á tímabilinu 2019-2023. Í nýja samkomulaginu kemur hins vegar fram að hefjast eigi handa við þau árið 2021 og ljúka við þau sama ár. Áætlaður kostnaður viðræðuhópsins var 1 milljarður.
Hér er horft til síðasta áfanga Arnarnesvegarins, sem nær frá efri byggðum Kópavogs um Vatnsendahæð og tengist svo inn á Breiðholtsbrautina fyrir ofan Selin, en neðan Hvarfahverfis. Áður var kláruð tengingin frá Reykjanesbraut fyrir ofan Lindahverfi að Salahverfi. Í áætlun viðræðuhópsins var gert ráð fyrir 1,5 milljörðum í þessa framkvæmd og að hún yrði á tímabilinu 2024-28. Nú er hins vegar horft til þess að hafist verði handa árið 2021 og vegurinn kláraður sama ár.
Eins og með Arnarnesveginn var þessi framkvæmd sett á tímabilið 2024-28 hjá viðræðuhópnum, en er nú komin fram til ársins 2021. Reyndar er horft til þess að framkvæmdir klárist ári seinna, eða 2022. Hjá viðræðuhópnum var hins vegar horft til þess að um bætt gatnamót væri að ræða alla leið að Stekkjarbakka frá Holtavegi, en ekki að um stokk sé að ræða. Í samkomulaginu er aftur á móti komið inn að framkvæmdin sé í formi stokks og þá er aðeins horft til kaflans frá Vesturlandsvegi að Holtavegi. Það má þó benda á að gatnamót Reykjanesbrautar og Bústaðavegar, sem eru jú í áttina að Stekkjarbakka, eru fyrsta framkvæmdin á þessum lista.
Þá er komið að næsta stokk, en í þetta skiptið er það fyrri hluti á stokki undir Miklubraut. Miðað við samkomulagið á stokkurinn að ná fullkláraður frá Snorrabraut að Kringlumýrarbraut. Í áætlun viðræðuhópsins var horft til þess að stokkurinn myndi ná alla leið að Háaleitisbraut í austri, en í nýja samkomulaginu hefur sú vegalengd verið stytt talsvert. Nú ert horft til þess að hafist verði handa við þennan fyrsta áfanga 2022 og hann kláraður 2023, en áður var horf til þess að vinna við stokkinn myndi hefjast á tímabilinu 2024-2028 og standa yfir til 2033. Áætlað til verksins í heild voru 10 milljarðar á hvoru tímabilinu, eða samtals 20 milljarðar. Þá er einnig gert ráð fyrir kostnaði við borgarlínu sem nær um Miklubrautina, en það kemur aukalega við þessa upphæð.
Samkvæmt nýja samkomulaginu verður hafist handa við fyrta áfanga borgarlínu á árunum 2021-2023 með annars vegar tengingu frá Ártúni niður á Hlemm og svo frá Hamraborg á Hlemm. Tenging frá Hamraborg um Smára í Lindir er svo hluti af næsta skrefi fyrsta áfanga. Hjá viðræðuhópnum var horft til þess að þessi framkvæmd væri á tímabilinu 2024-2028 og að kostnaður væri 3,4 milljarðar. Í nýja samkomulaginu er hins vegar búið að færa þetta fram til ársins 2023-2024.
Seinni hlutinn af Miklubrautarstokknum. Í þetta skiptið nær hann frá Rauðarárstíg að Kringlumýrarbraut. Eins og kom fram hér að ofan er ekki lengur gert ráð fyrir að stokkurinn nái alla leið að Háaleitisbraut. Sem fyrr segir var áætlaður kostnaður vegna verksins í heild 20 milljarðar og átti það að vinnast frá 2024-2033. Nú er hins vegar horft til þess að það verði að fullu klárað fyrir árslok 2026.
Hér er um að ræða vegkaflann sem nær frá Álftanesvegi (rétt austan við íþróttasvæði FH) og svo Reykjanesbrautina að Lækjargötu. Í upphaflegum tillögum viðræðuhópsins er lagt til að leggja þennan kafla í stokk, en á kynningu frá í gær er aðeins talað um stofnbraut, en ekki stokk. Hjá viðræðuhópnum var horft til þess að framkvæmdin yrði einhvern tímann á tímabilinu 2024-2028, en það er sama framkvæmdatímabil og er nú gefið upp samkvæmt nýja samningnum. Framkvæmdir við stokkinn voru áætlaðar 5 milljarðar af viðræðuhópnum.
Stokkur á Hafnarfjarðarvegi í Garðabæ fram hjá Vífilsstaðavegi og upp á Ásholtið er nú kominn á dagskrá frá 2028-2030, en hafði áður verið áætlað af viðræðuhópnum frá 2029-2033. Kostnaður við stokkinn var þá áætlaður 7 milljarðar. Er stokkurinn lagður í tengslum við framkvæmdir við borgarlínu sem áformað er að fari um Hafnarfjarðarveg inn í Hafnarfjörð.
Síðasta framkvæmdin á þessum flýtilista er borgarlína frá Ártúni yfir í Mosfellsbæ. Hjá viðræðuhópnum var ráðgert að þetta væri hluti af öðrum áfanga borgarlínu, sem ráðist yrði í eftir árið 2030 og lokið yrði við fyrir árið 2040. Áttu þar einnig að vera leiðir inn í ytri hverfi Hafnarfjarðar og Kópavogs, upp í Breiðholt, Mosfellsbæ, Seltjarnarnes og Laugarneshverfi. Með þessu er hins vegar verið að flýta Mosfellsleiðinni yfir á árin 2031-2033. Ekki var áætlaður kostnaður fyrir verkið, þar sem tillögur viðræðuhópsins náðu aðeins til ársins 2033 og var Mosfellsleiðin ekki þar inni.