Ráðherra staðfestir fækkun framkvæmdastjóra á LSH

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala, segir að næstu mánuðir muni reyna …
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala, segir að næstu mánuðir muni reyna á, eins og breytingar gera alltaf. Heilbrigðisráðherra hefur samþykkt nýtt skipurit spítalans sem tekur gildi á þriðjudag, 1. október. mbl.is/Golli

Skipuritsbreytingar á Landspítala taka gildi um mánaðamótin, það er á þriðjudag, og hefur Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra staðfest breytingarnar. Frá þessu greinir Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, í vikulegum forstjórapistli sínum. 

Breytingarnar eru gerðar í skugga rekstrarhalla, en samkvæmt hálfs­árs­upp­gjöri nam rekstrarhallinn 2,4 millj­örðum króna og er áætlað að hann verði 4,5 millj­arðar á ár­inu að óbreyttu. 

Breytingarnar eru unnar í samráði við framkvæmdastjórn Landspítala og fjölmarga innan spítalans, auk þess sem álits hjúkrunarráðs og læknaráðs spítalans var leitað við gerð skipuritsbreytinganna. 

Síðasta stóra breyting á skipuriti Landspítala var árið 2009. „Þær breytingar sem þá voru gerðar skiptu sköpum í þeim öldusjó sem var í kjölfar fjármálahrunsins en þáverandi skipurit hentar ekki lengur verkefnum spítalans,“ skrifar Páll. 

Stöður níu framkvæmdastjóra lagðar niður

Meðal helstu breytinga má nefna að framkvæmdastjórum er fækkað um níu í þeim tilgangi að gera framkvæmdastjórn stefnumiðaðri, með meiri yfirsýn og fókus á þróun heilbrigðisþjónustu, heilbrigðisáætlun, samvinnu við aðrar heilbrigðisstofnanir og aðra þætti velferðarþjónustu í landinu.

Stöður níu framkvæmdastjóra voru lagðar niður og í stað þeirra auglýstar stöður framkvæmdastjóra þessara þriggja sviða. Ráðning í þær stöður liggur fyrir um mánaðamótin.

Formlegur undirbúningur að breytingunum nú hófst síðasta vetur. Nýtt skipurit Landspítala má sjá á tveimur myndum hér að neðan. Önnur er hefðbundin skipuritsmynd en þeirri síðari er ætlað að leggja áherslu á þær víddir sem ráða áherslum í starfsemi spítalans.

Meginmarkmið breytinganna er að sníða skipulag starfseminnar og stjórnunarfyrirkomulag að …
Meginmarkmið breytinganna er að sníða skipulag starfseminnar og stjórnunarfyrirkomulag að aðalverkefnum spítalans og síbreytilegum þörfum samfélagsins um leið og hagrætt er í stjórnunarþætti Landspítala. Skýringarmynd/Landspítali
Tenging vísinda og menntunar er sérstakt áhersluatriði og „hringskipuritið“ á …
Tenging vísinda og menntunar er sérstakt áhersluatriði og „hringskipuritið“ á að endurspegla það hvernig þessi kjarnahlutverk spítalans eiga að vera allt um lykjandi í þjónustunni. Skýringarmynd/Landspítali

Meginmarkmið breytinganna að sögn Páls er að sníða skipulag starfseminnar og stjórnunarfyrirkomulag að aðalverkefnum spítalans og síbreytilegum þörfum samfélagsins um leið og hagrætt er í stjórnunarþætti Landspítala. Á sama tíma er leitast við að ná betri heildarsýn á núverandi flæði og þjónustu við sjúklinga með því að draga úr sílóum og samhæfa starfsemina þvert á núverandi svið. „Það er mat okkar að nýtt skipurit styðji við undirbúning að starfsemi spítalans í nýju húsnæði við Hringbraut,“ skrifar Páll. 

Í pistli hans á vef Landspítalans má sjá nánara yfirlit yfir breytingarnar sem og myndskeið þar sem hann fer yfir breytingarnar, sem má einnig sjá hér að neðan:



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert