Sjálfbær rekstur markmið Landspítala

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, segir skipuritsbreytingar sem taka gildi á …
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, segir skipuritsbreytingar sem taka gildi á Landspítalanum eftir helgi ekki gerðar með það fyrir augum að ná rekstrarhagræðingu heldur til að bæta þjónustu og gera hana skilvirkari. mbl.is/Golli

Skipuritsbreytingar sem taka gildi á Landspítalanum eftir helgi eru ekki gerðar með það fyrir augum að ná rekstrarhagræðingu heldur til að bæta þjónustu og gera hana skilvirkari. Þetta segir Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, í samtali við mbl.is. 

Líkt og Páll hefur áður sagt eru skipu­rits­breyt­ing­ar spít­al­ans „vissu­lega kynnt­ar í skugga fjár­hags­stöðu Land­spít­ala en eru þó ekki sér­stak­lega til komn­ar vegna henn­ar.“

„En strax með minni launakostnaði yfirstjórnar þá hjálpar það eitthvað, en er bara dropi í hafið. Til lengri tíma náum við vonandi meiri skilvirkni í þjónustunni og það skilar árangri,“ segir hann. 

Fjallað hef­ur verið um veru­leg­an halla­rekst­ur Land­spít­ala á ár­inu, en samkvæmt hálfs­árs­upp­gjöri nam rekstrarhallinn 2,4 millj­örðum króna og er áætlað að hann verði 4,5 millj­arðar á ár­inu að óbreyttu. Gripið hefur verið til hagræðingaraðgerða en þær tengjast í sjálfu sér ekki skipuritsbreytingunum að sögn Páls. 

„Þær eru mjög fjölþættar og lúta að því að velta við hverjum steini hjá okkur og auka aðhald í allri þeirri þjónustu sem lýtur ekki beint að sjúklingum. Það tekur tíma að gera það til þess einmitt að það trufli ekki þjónustu við sjúklinga sem er viðkvæm. Síðan erum við í samtali við stjórnvöld, annars vegar varðandi launabætur sem eru í nokkrum tilvikum ekki rétt reiknaðar að okkar mati og síðan höfum við ráðist í sérstakar aðgerðir til að gera starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga á vöktum betra og það er mikilvægt að gert verði ráð fyrir samsvarandi aðgerðum í nýjum kjarasamningum stétta sem sinna hjúkrun þegar þeir nást,“ segir Páll. 

Sjálfbær rekstur raunhæft markmið til lengri tíma

Hagræðingaraðgerðirnar eru á ýmsum stigum að sögn Páls. „Sumar eru þegar komnar til framkvæmda og aðrar eru í vinnslu og hafa verið kynntar fyrir heilbrigðisráðherra og að verulegu leyti fyrir fjárlaganefnd. Þær eru í vinnslu áfram. Markmið okkar er að rekstur spítalans sé sjálfbær og það tel ég að sé raunhæft markmið til aðeins lengri tíma, sérstaklega ef við fáum stuðning við þá þætti sem við ráðum ekki yfir, en þetta er stórt verkefni.“

Þá segir hann að finna megi þætti í skipuritsbreytingunum sem munu sannarlega hjálpa rekstri spítalans en rekstrarvandinn ýti enn frekar undir að breytingarnar verði unnar hratt. 

Heilbrigðisráðherra samþykkti breytingarnar án athugasemda, sem eru þær umfangsmestu í áratug. Tilgangur skipuritsbreytinganna er í raun áttþættur, sem hér segir: 

  1. Að fækka framkvæmdastjórum og gera framkvæmdastjórn stefnumiðaðri, með meiri yfirsýn og fókus á þróun heilbrigðisþjónustu, heilbrigðisáætlun, samvinnu við aðrar heilbrigðisstofnanir og aðra þætti velferðarþjónustu í landinu.
  2. Að draga úr kostnaði við yfirstjórn spítalans.
  3. Að draga úr sílómyndun og bæta þannig flæði og skilvirkni í klínískri þjónustu.
  4. Að minnka stjórnunarspönn þar sem hún er of mikil.
  5. Að búa til, þar sem við á, lag forstöðuaðila sem hafa klínískt, samhæfingar- og leiðtogahlutverk.
  6. Að efla þjónustuhlutverk stoðþjónustu.
  7. Að efla og skýra aðkomu spítalans að Hringbrautarverkefninu.
  8. Að undirbúa spítalann undir það skipulag sem nýr meðferðarkjarni, rannsóknarkjarni og göngudeildarbygging krefst.
Meginmarkmið breytinganna er að sníða skipulag starfseminnar og stjórnunarfyrirkomulag að …
Meginmarkmið breytinganna er að sníða skipulag starfseminnar og stjórnunarfyrirkomulag að aðalverkefnum spítalans og síbreytilegum þörfum samfélagsins um leið og hagrætt er í stjórnunarþætti Landspítala. Skýringarmynd/Landspítali

Vinna hratt svo raskið verði sem minnst

Meðal helstu breyt­inga má nefna að stöður níu fram­kvæmda­stjóra voru lagðar niður og í stað þeirra aug­lýst­ar stöður fram­kvæmda­stjóra þess­ara þriggja sviða. Ráðning í þær stöður ligg­ur fyr­ir um mánaðamót­in.

„Október verður nýttur í það að endurskipuleggja skiptingu starfseminnar og þeir framkvæmdastjórar sem fyrir voru koma að því líka,“ segir Páll og bætir við að sérstakur innleiðingarhópur komi að verkefninu. 

„Þótt einhver starfsemi sé færð til þannig að það breytist hver stýrir henni sem framkvæmdastjóri, þá breytir það í sjálfu sér ekki starfseminni, þannig að það er ekki mjög viðkvæmt. En þar sem við förum nærri starfseminni, eins og þar sem við erum að byggja upp kjarna krabbameinsþjónustu og kjarna hjarta- og æðasjúkdóma, hvoru tveggja  ný „konsept“, þá þurfum við að vanda okkur mjög mikið. Til að raskið verði sem minnst erum við að vinna hratt.“ 

Ástandið á bráðamóttökunni flókið mál

Aukið álag hefur verið á bráðamóttöku spítalans undanfarið og þarð sem af er þessu ári hefur orðið 481 atvik á bráðamóttökunni þar sem eitt­hvað hef­ur farið úr­skeiðis við meðhöndl­un sjúk­linga og er það fjölgun frá fyrri árum. 

Páll segir að ákveðin samlegðaráhrif náist með skipuritsbreytingunum, þó að vissulega þurfi meira til svo að lausn fáist í í þeirri flóknu stöðu sem er á bráðamóttökunni.  

„Með því að setja saman á svið, annars vegar bráðamóttökuna og hins vegar margar af þeim legudeildum sem taka við sjúklingum af bráðamóttökunni, næst ákveðin samlegð þar og við setjum þá innan sömu skipulagsheildar fólk sem þarf að vinna mjög þétt saman að því að veita sjúklingum þjónustu, allt frá því að þeir koma inn og þar til þeir útskrifast. En auðvitað er ástandið á bráðamóttöku flókið mál og það þarf miklu meira til en skipulagsbreytingar.“

Páll segir ástandið á bráðamóttöku flókið mál og það þarf …
Páll segir ástandið á bráðamóttöku flókið mál og það þarf miklu meira til og annað en bara skipuritsbreytingar, en þær muni þó hjálpa að vissu leyti. mbl.is/Kristinn Magnússon

Páll segir að næstu mánuðir muni reyna á, eins og breytingar gera ávallt. „Það er alltaf áskorun að breyta en þetta eru mjög spennandi tímar. Það flækir auðvitað myndina að á sama tíma erum við að fara í hagræðingaraðgerðir. Við biðlum til fólks að sýna því skilning að það verða ýmsar breytingar og að við erum að reyna að finna leiðir til að skipuleggja starfsemina með sem bestum hætti. Mér finnst þetta mjög spennandi en geri mér  grein fyrir að þetta er líka áskorun og reynir á starfsfólk.“

Biður hann því starfsfólk að sýna þessari „seinni bylgju“ breytinga þolinmæði og skilning en hann ítrekar að unnið verði að breytingunum eins hratt og unnt er.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert