Umferðar- og flýtigjöld lögð á árið 2022

Umferðin á Miklubraut er gjarnan nokkuð þétt á morgnana.
Umferðin á Miklubraut er gjarnan nokkuð þétt á morgnana. mbl.is/Árni Sæberg

Áætlað er að leggja umferðar- og flýtigjöld á á höfuðborgarsvæðinu árið 2022, þegar framkvæmdir samkomulags sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og ríkisins um upp­bygg­ingu sam­göngu­innviða og al­menn­ings­sam­gangna eru komnar vel af stað.

Þetta segir Páll Björgvin Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu.

„Það á eftir að útfæra þátt flýti- og umferðagjalda. Þau verða ekki lögð á fyrr en framkvæmdirnar eru komnar vel af stað og samkvæmt samkomulaginu er áætlað að það verði á árinu 2022,“ segir Páll.

Þá tekur samkomulagið á því að önnur fjármögnun geti verið í formi sérstakra ríkisframlaga eða hlutdeildar í öðrum tekjustofnun tengdum samgöngum, enda raskist ekki fjármögnun samkomulagsins, að sögn Páls.

Gjöldin flýti framkvæmdum

Gert er ráð fyr­ir að fjár­fest verði fyr­ir 120 millj­arða króna. Ríkið muni leggja fram 45 millj­arða, sveit­ar­fé­lög­in 15 millj­arða og á sér­stök fjár­mögn­un að standa und­ir 60 millj­örðum. Hennar á að afla með umferðar- og flýtigjöldum annars vegar og/eða sölu á eignum ríkisins hins vegar.

Spurður hvort umferðar- og flýtigjöldin séu tvö mismunandi gjöld segir Páll:

„Þetta er heiti yfir það að taka gjald af tiltekinni ferð eða umferð, en með þá tengingu að verið er nýta gjöldin til að flýta framkvæmdum sem annars hefðu tekið mun lengri tíma. Það er rétt að taka fram að gjaldtakan er óútfærð og hve stór hluti verður í formi flýti- og umferðargjalda. Um útfærsluna verður stofnaður sameiginlegur starfshópur aðila samkomulagsins.“

Hvert sveitarfélag ákveði stíga

Í myndskeiði um samkomulagið, sem undirritað var í gær, er nákvæmlega greint frá því hvaða stofnbrautir verða lagðar og hvernig borgarlínan mun líta út. Í göngu- og hjólastíga, göngubrýr og undirgöng  eiga að fara 8,2 milljarðar en hvergi er útlistað nákvæmlega hvar þessir stígar verða lagðir.

Páll segir að áætlanir sem varða hjóla- og göngustíga liggi núna hjá hverju sveitarfélagi og mikið hafi áunnist í þeim málum á undanförnum árum á höfuðborgarsvæðinu. Nú verði horft til þessara áætlana með sameiginlegum og samræmdum hætti og horft til þeirra framkvæmda samhliða öðrum þáttum í framkvæmdaáætlun samkomulagsins.

Páll Björgvin Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.
Páll Björgvin Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

„Það er verið að leggja mikla áherslu á það að þáttur hjóla- og göngustíga sé hluti af valmöguleikum fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins til þess að nýta til þeirra ferða sem fólk þarf að fara í. Mér finnst samkomulagið snúast um að verið er að bjóða upp á fjölbreytni og valmöguleika fyrir fólk til framtíðar til að ferðast um höfuðborgarsvæðið og ætlunin er auðvitað að stytta ferðatíma íbúa höfuðborgarsvæðisns og veita fólki tækifæri og möguleika til að breyta ferðavenjunum með einhverjum hætti.“

Eitt markmiða samkomulagsins snýr að loftslagsmálum.

„Loftslagsmálin eru mjög mikilvæg og eðlilega sérstaklega tilgreind í markmiðskafla samkomulagsins. Í þessu samhengi vil ég líka benda á það að þegar við erum komin með enn skilvirkari valmöguleika hvað varðar ferðamáta, þá er þetta töluvert hjá okkur sjálfum hvernig við viljum hafa áhrif á loftslagsmálin með eigin hegðun. Þarna verða komnir enn skilvirkari valmöguleikar, þú getur ferðast með hágæða almenningssamgöngum, þú getur ekið bíl og þeir sem hafa tök á, geta nýtt göngu- og hjólreiðastíga til að ferðast um höfuðborgarsvæðið. Þá er lögð sérstök áhersla á umferðastýringarmál og flýtingu ákveðinna framkvæmda,“ segir Páll.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert