Landgerð utan Klettagarða í Sundahöfn er í fullum gangi en hún hófst síðastliðið vor. Hver vörubíllinn af öðrum kemur akandi með grjót úr grunni nýja Landspítalans og sturtar í sjóinn.
Hin nýja landfylling verður alls 2,0 -2,5 hektarar, samkvæmt upplýsingum Jóns Þorvaldssonar, aðstoðarhafnarstjóra Faxaflóahafna sf. Í landgerðina þarf um 375.000 rúmmetra af fyllingarefni og stórgerðu grjóti til sjóvarna. Um 180-200.000 m3 fást í heild úr grunni Landspítalans, um 80.000 m3 af fyllingarefni eiga Faxaflóahafnir til í dag á svæðinu utan Klepps og um 100.000 m3 þarf síðan að fá úr öðrum verkum, að sögn Jóns.
Efniskeyrsla úr grunni Landspítala hófst í vor og reiknað er með að því verki ljúki á fyrstu mánuðum næsta árs. Landgerðarframkvæmdir munu standa yfir árið 2020 og þeim líklega ljúka vorið 2021. Landfyllingin mun ekki ná út að Skarfaskeri og skerið verður því áfram sýnilegt kennileiti á þessum stað.
Markmiðið með þessari nýju landfyllingu við Klettagarða er að útbúa lóð fyrir framtíðarhöfuðstöðvar Faxaflóahafna sf., að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.