Lífeyrissjóðurinn Stapi segist hafa unnið í góðri trú að lausn vangreiddra iðgjalda með Vopnafjarðarhreppi frá því uppgötvaðist að sveitarfélagið hefði vangreitt iðgjöld hluta starfsmanna. Enda hafi strax komið fram vilji sveitarfélagsins til að leysa málið þannig að sjóðsfélagar yrðu ekki fyrir tjóni vegna málsins og fengju þau lífeyrisréttindi sem þeir hefðu fengið ef rétt mótframlag hefði verið greitt á réttum tíma, þó svo að kröfurnar væru hugsanlega fyrndar.
Fram kom í frétt sem birt var í Morgunblaðinu í morgun að sveitarstjórn Vopnafjarðarhrepps hefði boðað til opins íbúafundar nk. mánudag til að kynna ákvörðun um uppgjör á vangoldnum lífeyrissjóðsiðgjöldum hluta starfsmanna sinna.
Vegna mistaka voru mótframlög vinnuveitenda ekki hækkuð á árinu 2005, í samræmi við ákvæði kjarasamninga. Gekk þetta í tíu ár og safnaðist við það upp rúmlega 40 milljóna króna skuld.
Í umfjöllun Morgublaðsins kemur fram að sveitarstjórnin hafi ákveðið að greiða höfuðstólinn og vexti af greiðslum sem ekki teljast fyrndar, en telur lífeyrissjóðinn Stapa einnig eiga að taka ábyrgð þar sem sjóðurinn láti það sem upp á vantar skerða lífeyrisréttindi starfsfólksins.
Stapi mótmælir þessu og segir að af orðalaginu megi skilja að núverandi lífeyrisréttindi viðkomandi sjóðfélaga skerðist. Slíkt sé ekki rétt. „Hins vegar myndast ekki þau réttindi sem hefðu myndast ef Vopnafjarðarhreppur hefði greitt laun skv. kjarasamningum. Vangreiðslur Vopnafjarðarhrepps orsaka að starfsmenn þess hljóta ekki þau lífeyrisréttindi sem kjarasamningar kveða á um,“ segir í athugasemdunum.
Innheimta iðgjalda Stapa gagnvart Vopnafjarðarhreppi hafi byggst á röngum upplýsingum frá sveitarfélaginu sem Stapi hafi ekki getað sannreynt, enda hafi sjóðurinn ekki upplýsingar um kjara- og ráðningasamninga viðkomandi launþega. Þær upplýsingar hafi launagreiðandi.
„Lífeyrissjóðum ber að innheimta lágmarksiðgjald samkvæmt lögum þegar upplýsingar liggja ekki fyrir um annað. Óumdeilt er að Stapi gerði það í tilviki Vopnafjarðarhrepps í samræmi við rangar upplýsingar sem sveitarfélagið veitti sjóðnum. Stapi áréttar að það er á ábyrgð launagreiðenda að þekkja og greiða samkvæmt þeim kjarasamningum sem hann er aðili að. Undan þeirri ábyrgð verður ekki skorast.“
Réttindi í lífeyrissjóðum myndist þegar iðgjöld séu greidd og eigi að mynda réttindi fyrir iðgjöld sem ekki eru greidd þurfi að skerða réttindi annarra og slíkt sé lífeyrissjóðum ekki heimilt að gera.
Stapi hafi hins vegar í góðri trú unnið að lausn málsins með Vopnafjarðarhreppi frá því að það kom upp „enda kom strax fram vilji sveitarfélagsins til að leysa málið í sátt þannig að sjóðfélagar yrðu ekki fyrir tjóni vegna málsins og fengju þau lífeyrisréttindi sem þeir hefðu fengið ef rétt mótframlag hefði verið greitt á réttum tíma þó svo að kröfur væru hugsanlega að hluta fyrndar.“
Með ákvörðun sveitarstjórnar í júní hafi hins vegar verið beygt af þeirri leið án nokkurs samráðs við Stapa.