Veggjöld í andstöðu við lífskjarasamninginn

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Hvað lífskjarasamninginn varðar þá vinnur þetta algerlega gegn markmiðum hans. Það liggur í hlutarins eðli þar sem samningurinn fól í sér að lækka kostnaðinn við það að lifa, þar með talið með tilliti til skattbyrði,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, í samtali við mbl.is um hugmyndir um veggjöld í tengslum við samkomulag ríkisins og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðisins um uppbyggingu samgangna sem undirritað var í gær. Hann leggur þó áherslu á að enn virðist aðeins um hugmyndir að ræða.

„Ríkisstjórnin og sveitarfélögin lýstu því yfir að þau myndu halda aftur af sér í gjaldskrárhækkunum og það liggur alveg fyrir að þetta vinnur gegn markmiðum lífskjarasamningsins. Öll svona umræða grefur í sjálfu sér undan samningnum og talar gegn honum. Verði þetta að veruleika þá held ég að það sé útilokað að hann haldi,“ segir Ragnar ennfremur. Bendir hann á að viðbúið sé að veggjöldin lendi ekki hvað síst á lágtekjufólki sem sest hafi að í úthverfum til þess að komast í ódýrara húsnæði.

„Þetta liggur í hlutarins eðli. Sérstaklega í ljósi þess að lágtekjufólk hefur verið að koma sér fyrir í úthverfum borgarinnar og gott betur en það. Fólk hefur til dæmis verið að flytja á Suðurnesin, Suðurlandið, Akranes. Fólk hefur verið að flýja alltaf lengra og lengra út fyrir stórhöfuðborgarsvæðið til þess að komast í hagkvæmara húsnæði og þar af leiðandi taka á sig þann aukakostnað sem felst í því að keyra á milli. Aukin veggjöld munu klárlega stríða gegn öllum þeim markmiðum sem við höfum verið að setja okkur varðandi lífskjarabætur, ekki aðeins fyrir lægri tekjuhópana heldur alla tekjuhópa.“

Þjóðaríþrótt að elta mistök annarra landa

Ragnar bendir ennfremur á að vakin hafi verið athygli á því að bara kostnaðurinn við eftirlit og innheimtu í tengslum við veggjöld sé þess eðlis að þá sé betra að nota þau kerfi sem fyrir séu eins og skattkerfið. Frekar en að fara í slíkan gríðarlegan kostnað sem muni lenda á skattgreiðendum að standa undir til viðbótar við það fjármagn sem hugmyndin sé að fá inn til þess að greiða fyrir fyrirhugaðar framkvæmdir í samgöngumálum. Ragnar segir aðspurður að önnur betri leið væri vissulega fá fjármagnið með sölu ríkiseigna.

mbl.is/​Hari

„Mikill eftirlits- og innheimtukostnaður hefur verið reynsla annarra landa og við eigum að hlusta á og læra af öðrum í stað þess að vera að gera sömu mistökin og hafa verið gerð annars staðar. Það virðist stundum vera einhvers konar þjóðaríþrótt okkar Íslendinga að læra ekki af reynslu annarra. Við eigum að reyna frekar að horfa til þess sem vel er gert og skynsamlegt í stað þess að finna hjólin alltaf upp á nýtt,“ segir Ragnar. „Við munum í öllu falli ekki sætta okkur við það að hópurinn sem við vorum að semja fyrir núna muni taka á sig þessar byrðar.“

Of mikið í húfi fyrir stjórnvöld og samfélagið

Ragnar segist ekki hafa tjáð sig mikið um málið vegna þess að hann hafi ekki trú á því að áformin um veggjöld verði að veruleika. Hugmyndin sé það galin. „Sérstaklega ekki miðað við það sem samið var um í lífskjarasamningnum. Ég held að það sé miklu meira í húfi fyrir bæði stjórnvöld og samfélagið allt að þeir samningar haldi heldur en að fara út í svona vitleysu.“

Annað tengt samningunum varðar Keldnalandið í Reykjavík sem Ragnar segir að hafi í raun verið búið að lofa verkalýðshreyfingunni að yrði notað til þess að byggja upp hagkvæmar íbúðir. Nú eigi að selja það, væntanlega hæstbjóðanda, til þess að fjármagna að hluta umræddar samgönguframkvæmdir. „Maður hefur það á tilfinningunni að verið sé að selja landið í annað skiptið. Fyrst í tengslum við lífkjarasamninginn og núna til að fjármagna samgönguframkvæmdir. Hvaða áhrif mun það hafa á fasteignaverð eða byggingakostnað næstu ár og spila með þeim úrræðum sem við erum að vinna með stjórnvöldum varðandi fyrstu kaup? Það er mörgum spurningum ósvarað í þessu.“

„Ég trúi því að stjórnvöld átti sig á því í hvaða vegferð þau eru að fara ætli þau sér að ógna þeirri miklu og góðu vinnu sem við náðum síðasta vor með gerð þriggja og hálfs árs samnings. Ég held að það sé bara of mikið í húfi og neita að trúa því að menn séu það skammsýnir,“ segir Ragnar og minnir á að verkalýðshreyfingin hafi lýst því yfir að verði forsendur lífskjarasamningsins ekki fyrir hendi lengur við endurskoðun hans í september á næsta ári þá verði hann felldur. „Það bara liggur fyrir. En ég leyfi mér að vera bjartsýnn á að þetta leysist með einhverjum jákvæðum hætti enda hef ég hingað til skynjað vilja stjórnvalda til að standa við þennan samning sem við gerðum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert