Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, vísar því á bug að verið sé að selja Keldnaland í Reykjavík í annað sinn eins og Ragnar Þór, formaður verkalýðshreyfingarinnar VR, sagði í viðtali við mbl.is sem birtist í gær.
Sigurður Ingi segir sömuleiðis að svokölluð flýti- og umferðargjöld, sem eru í raun veggjöld, séu ekki í mótsögn við lífskjarasamninginn.
Helmingur fjármagnsins sem rennur til samgöngusáttmála ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu á að koma úr svokallaðri sérstakri fjármögnun. Uppistaðan í henni er umferðar- og flýtigjöld ásamt sölu á ríkiseignum, þá helst Keldnalandi.
Í fyrrnefndu viðtali sagði Ragnar að í raun hefði verið búið að lofa verkalýðshreyfingunni að á Keldnalandi yrðu byggðar hagkvæmar íbúðir en nú ætti að selja það, væntanlega hæstbjóðanda.
Sigurður Ingi segir að vissulega eigi að selja landið en samt sem áður verði þar byggðar íbúðir á hagstæðu verði.
„Eitt af verkefnunum í lífskjarasamningnum var að Keldnaland yrði byggingarhæft og þar yrðu fjölbreyttar íbúðir í boði. Það var talað um ákveðin hlutföll af íbúðum. Í þessu samkomulagi um samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu er í raun verið að uppfylla þetta með því að setja Keldnaland inn. Við erum með ákvæði um það að það eigi að nýta landið sem mest og þannig að hámarka afraksturinn af því, meðal annars með fjölbreyttum íbúðum,“ segir Sigurður Ingi.
Á landinu verða gerðar miklar skipulagskröfur, að sögn Sigurðar Inga.
„Í þessum samningi erum við að tryggja það að með aðkomu okkar að skipulagsmálunum sé tryggt að þarna verði fjölbreyttar íbúðir í boði fyrir ólíka hópa. Ef þú selur landið og gerir engar skipulagskröfur er hægt að byggja þarna 15 hús, mjög stór með 10 hektara hvert.“
Þá væri draumurinn um ódýrar íbúðir fyrir bý. „En ef við skipuleggjum landið þannig að þar verði ákveðið hlutfall af minni og ódýrum íbúðum og skipulagssvæðið nýtt eins og kostur er, þá getum við uppfyllt það sem við skrifuðum undir í lífskjarasamningnum,“ segir Sigurður Ingi.
Hann bendir á að átak í samgöngumálum hafi einnig verið eitt af ákvæðum lífskjarasamningsins.
„Annað atriði í lífskjarasamningnum var að við ætluðum að tryggja samgöngur, meðal annars almenningssamgöngur, að byggðarkjörnum, hvort sem þeir væru innan höfuðborgarsvæðisins eða í útjaðri þess. Í þessu verkefni erum við einmitt að flýta verkefninu, almenningssamgöngu- borgarlínuverkefninu, sem fer í gegnum Keldnalandið og upp í Mosfellsbæ. Þannig að við erum í raun og veru að uppfylla bæði þessi ákvæði lífskjarasamningsins, húsnæði á hagstæðu verði og að samgöngur séu tryggðar.“
Bæði Ragnar Þór og Drífa Snædal, forseti ASÍ, hafa lagst gegn veggjöldum. Ragnar sagði þau í andstöðu við lífskjarasamninginn. Sigurður Ingi vísar því á bug.
„Ef þetta væru viðbótarálögur sem væru að lenda á þeim tekjulægri þá myndi það auðvitað virka á neikvæðan hátt fyrir þann hóp. Þess vegna er í samkomulaginu sagt að við útfærsluna skuli greina áhrif á einstaka tekjuhópa og búsetuhópa svo það sé tryggt að þetta sé gert með sem sanngjörnustum hætti.“
Sigurður Ingi tekur fram að fyrst og fremst sé unnið að því að skipta um gjaldakerfi.
„Markmiðið með þessum breytingum er síður en svo að hækka álögur á bifreiðaeigendur heldur fremur að ná til þeirra sem greiða ekkert í dag. Sú vinna er hafin og gæti hugsanlega orðið strax á árinu 2022 þegar fyrirhuguð er gjaldtaka á höfuðborgarsvæðinu, þá væri hún hluti af breytingum um allt land.“