„Ég hef aldrei reykt sjálfur, svo því sé haldið til haga, ég hef ekki einu sinni sogið upp í mig reyk. Ætti ég að fara að byrja á því núna? Auðvitað ekki.“ Þannig hljóðuðu skilaboð Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands, til nemenda í 9. bekk í Fellaskóla í morgun, á sérstökum kynningarfundi fyrir forvarnardaginn sem haldinn verður í flestum grunn- og framhaldsskólum landsins á miðvikudag.
Forvarnardagurinn hefur verið haldinn sem sérstakur viðburður á hverju hausti í allmörg ár og er nú í umsjá Embættis landlæknis. Forseti Íslands tekur þó eins og áður virkan þátt í framkvæmd dagsins og heimsækir skóla og ræðir við nemendur um gildi þess að forðast fíkniefnin.
„Við viljum öll gera vel. Við viljum öll forvarnir. Við viljum ekki að ungmenni lendi í þannig aðstæðum að það sé afar erfitt að eiga við það ástand sem upp er komið. Svo er það bara spurning hvernig við förum að?“ spurði Guðni.
Á forvarnardeginum er sjónum beint sérstaklega að unglingum í 9. bekk grunnskóla og fyrsta árs nemendum í framhaldsskólum. Í ár er lögð sérstök áhersla á aukna notkun rafretta og orkudrykkja, auk þess sem áhersla er lögð á mikilvægi svefns.
Það var einmitt í tengslum við rafrettur sem forsetinn ákvað að vekja athygli á að hann hefur aldrei „tekið smók,“ og átti þá við sígarettur og rafrettur. Hann sagðist þó skilja spennuna sem getur fylgt einhverju nýju eins og rafrettunum.
„Rafrettur geta líka verið spennandi, skemmtileg lykt og eitthvað svona. En rannsóknir sýna að það að byrja að nota rafrettur getur verið leið niður þann veg sem þið viljið ekki endilega fara,“ sagði forsetinn og ráðlagði ungmennunum að finna sér eitthvað annað spennandi að gera. „Farið í teygjustökk eða eitthvað svoleiðis frekar,“ sagði Guðni.
Guðni sagði að óttastjórnun og ógn væri ekki rétta leiðin til að beina ungmennum nútímans á beinu brautina. Máli sínu til stuðnings vísaði hann í Tvíhöfða, Jón Gnarr og Sigurjón Kjartansson, sem létu þau fleygu orð falla fyrir þó nokkrum árum að það að kyssa einhvern sem reykir er eins og sleikja ruslatunnu að innan. Forsetinn uppskar hlátur meðal viðstaddra fyrir dæmið.
„En virkar þetta? Ég er ekki endilega viss,“ sagði forsetinn og benti frekar á aðra leið. „Að fá fólk til að hugsa. Ég held að það fari eftir hverjum og einum hvað virkar. Kannski er betra fyrir suma að beita þessum ótta en kannski er betra fyrir aðra að rökhugsa sig í gegnum þetta, ekki vera hræddur og láta segja sér fyrir verkum heldur taka sínar ákvarðanir á eigin forsendum.“
Guðni lagði áherslu á að á Forvarnardeginum er lögð áhersla á að koma fram við ungmenni á jafningjagrundvelli. „Við ætlum ekki að skipa ykkur fyrir, við ætlum ekki að hóta ykkur, við ætlum ekki að búa til þannig umhverfi að ykkur finnist að verið sé að setja ykkur í ákveðið box og skipa ykkur að hafa ykkur ákveðinn hátt. En við ætlum að tala við ykkur og við ætlum, því miður, að segja líka að fordæmin eru þannig að þau eru til að varast.“
Alma D. Möller landlæknir ávarpaði einnig nemendur og starfsfólk skólans, auk borgarstjóra og fulltrúa þeirra samtaka og stofnana sem hafa staðið að deginum. Notkun á rafrettum og orkudrykkjum eru nýjar áskoranir að landlæknis, sem vakta athygli á mikilvægi svefns í máli sínu í Fellaskóla í morgun. „Svefn er algjört töfralyf og við vitum að við sofum ekki nóg.“
Alma spurði nemendur í skólastofunni hvort þau vissu hvað 9. bekkingar ættu að sofa lengi. Það stóð ekki á svörum, 8-9 tímar. Því næst spurði Alma: „Herra forseti, hvað á fullorðna fólkið að sofa mikið?“ „Nú bara fæ ég prófskrekk,“ svaraði forsetinn, en var svo fljótur að svara. „Að minnsta kosti sjö til átta tímar“ Landlæknir var ánægður með svar forsetans og gaf honum 10 í einkunn.
Forvarnardagurinn verður sem fyrr segir næstkomandi miðvikudag, 2. október. Þá munu unglingarnir ræða hugmyndir sínar og tillögur um æskulýðs- og íþróttastarf og fjölskyldulíf sem geta eflt varnir gegn vímuefnum og er þeim safnað í sérstakan hugmyndabanka sem nýst getur við stefnumótun í forvarnarmálum.
Í ár verður haldin stuttmyndakeppni í tengslum við Forvarnardaginn og geta nemendur, sem fæddir eru á árunum 2003–2005, tekið þátt í henni. Viðfangsefni myndarinnar verður að vera á meðal þriggja áhersluþáttanna í ár, þ.e. orkudrykkir, rafrettur eða svefn. Verðlaunin verða afhent við hátíðlega athöfn á Bessastöðum síðar í haust.