Gistikostnaður ríkisstarfsmanna lækkar umtalsvert

Viðmið dagpeninga ríkisstarfsmanna vegna gistikostnaðar á ferðalögum innanlands hefur lækkað …
Viðmið dagpeninga ríkisstarfsmanna vegna gistikostnaðar á ferðalögum innanlands hefur lækkað umtalsvert. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gistikostnaður fyrir ríkisstarfsmenn á ferðalögum innanlands hefur verið lækkaður töluvert samkvæmt auglýsingu sem birt var á vef stjórnarráðsins í dag. Leita þarf talsvert aftur til að finna viðmið fyrir gistikostnað sem er jafn lágur og nú er auglýstur. Fæðiskostnaður hækkar örlítið frá síðustu auglýsingu og hefur jafnframt hækkað frá síðasta ári.

Ferðakostnaðarnefnd auglýsir breytingar á dagpeningum ríkisstarfsmanna vegna ferðalaga innanlands alla jafna tvisvar til þrisvar á ári. Þannig er kostnaður vegna ferðalaga að sumri til nokkuð hærri en að vetri til, en þá er jafnan mest að gera í ferðaþjónustu hér á landi.

Samkvæmt auglýsingunni í dag fást nú í dagpeninga fyrir gistingu og fæði í einn sólarhring 22.700 krónur. Samkvæmt auglýsingu í maí sem gilti fyrir sumarið voru dagpeningagreiðslur fyrir þennan lið 32.500 krónur og hafa því lækkað um rúmlega 30%. Ef miðað er við auglýsingu ferðakostnaðarnefndar frá því í október í fyrra þá voru dagpeningar fyrir þennan lið 26.200. Eru þeir því 13,4% lægri í ár.

Fyrir gistingu í einn sólarhring fást 10.700 krónur samkvæmt nýjustu auglýsingu, en í sumar fengust 20.600 krónur og heftur það því lækkað um 48%. Sambærileg upphæð í október í fyrra var 15.000 krónur og er því upphæðin í ár 28,7% lægri.

Fyrir fæði hvern heilan dag, þar sem ferðalag er minnst 10 tímar, eru fæðispeningar núna metnir á 12.000 krónur. Í sumar voru þeir 11.900 krónur og í október í fyrra 11.200 krónur. Hefur sá kostnaður því hækkað um 7,1% milli ára.

Fyrir fæði í hálfan dag eru fæðispeningar núna 6.000 krónur, en voru í sumar 5.950 krónur og í október í fyrra 5.600 krónur. Er þar einnig um að ræða 7,1% hækkun milli ára.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert