Áforma sölu á Sigurhæðum

Sigurhæðir, hús Matthíasar Jochumssonar, stendur í brekkunni skammt frá Akureyrarkirkju.
Sigurhæðir, hús Matthíasar Jochumssonar, stendur í brekkunni skammt frá Akureyrarkirkju. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Akureyrarbær stefnir að því að selja Sigurhæðir, húsið sem þjóðskáldið og presturinn Matthías Jochumsson lét reisa og hýsir nú minningarsafn um hann. Reikna má með því að húsið verði auglýst til sölu á næstunni.

Helstu ástæður fyrir því að vilji er til að selja húsið er að það hefur ekki nýst síðustu árin vegna lélegs aðgengis. Hilda Jana Gísladóttir, bæjarfulltrúi og formaður stjórnar Akureyrarstofu, segir að aðgengi að húsinu sé svo slæmt að Akureyrarbæ sé ekki stætt á því að bjóða upp á starfsemi í því. Þá hafi bærinn áhyggjur af því að húsið fari illa vegna langvarandi notkunarleysis. „Kannski getur einhver annar fundið flöt á því að nýta það á einhvern hátt,“ segir Hilda Jana. Bendir hún á að húsið sé friðað.

Áberandi í bæjarmyndinni

Sigurhæðir eru sögufrægt hús og áberandi í bæjarmyndinni. Séra Matthías lét byggja það árið 1903. Það stendur í brattri brekku skammt frá Akureyrarkirkju. Auk Matthíasarstofu var árum saman efnt til ýmissa viðburða í húsinu og var skrifstofuaðstaða á efri hæðinni leigð skáldum og fræðimönnum til skapandi skrifa. Bærinn keypti bókasafn Steingríms J. Þorsteinssonar prófessors og hefur það verið til afnota fyrir notendur skrifstofuaðstöðunnar.

Sigurhæðum var lokað vorið 2017 vegna framkvæmda. Þeim er löngu lokið en húsið hefur ekki verið opnað aftur, að því er fram kemur í umfjöllun um söluáformin í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert