Enginn hafði látið sér detta í hug að kvótasetja makríl á Íslandsmiðum áður en hann fór að ganga svo norðarlega fyrir röskum áratug. Þegar makríll byrjaði að ganga á þessi mið í fæðuleit á sumrin var Íslendingum frjálst að veiða og enn eru óútkljáðar deilur við þá sem höfðu fiskveiðiréttindi á makríl frá fyrri tíð.
Geir Ottersen, sérfræðingur á norsku Hafrannsóknastofnuninni, bendir á þetta á heimasíðu stofnunarinnar og segir að breytt útbreiðsla hafi gengið hratt fyrir sig og haft áhrif á fiskveiðistjórnun.
Hann er einn höfunda skýrslu IPCC, milliríkjanefndar um loftslagsbreytingar, sem kom út í síðustu viku, og fjallar einkum um haf og ís [freðhvolf], að því er segir í fréttaskýringu um þetta efni í Morgunblaðinu í dag.
Þar segir að áhrifa veðurfarsbreytinga á vistkerfi norðurslóða muni gæta í fiskafla. Breytingar á útbreiðslu og stofnstærð fiskistofna af völdum hlýnunar hafi þegar haft áhrif á veiðar úr mikilvægum stofnum og á efnahagslegan ávinning veiðanna. Þetta hafi torveldað viðleitni haf- og fiskveiðistjórnunarstofnana til þess að tryggja gott ástand vistkerfa, mynda efnahagslegan ávinning og styrkja lífsafkomu, menningu og aðra þætti þjóðfélaganna.