Ekki náðst að uppræta hermannveiki á Droplaugarstöðum

Enn er unnið að því að uppræta hermannaveiki á Droplaugarstöðum.
Enn er unnið að því að uppræta hermannaveiki á Droplaugarstöðum. mbl.is/Golli

Ekki hefur náðst að uppræta hermannaveiki sem greindist á Droplaugarstöðum fyrir sex vikum þrátt fyrir gripið hafi verið til viðeigandi aðgerða í kjölfarið. Einn íbúi greindist með bakteríuna og náði hann fljótt bata. Hermannaveikin eða Legionell-bakterían lifir í vatnslagnakerfum. 

Nýjustu niðurstöður Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur sýna að enn er hermannaveiki í vatnslögnum á heimilinu. Farið verður í enn frekari framkvæmdir til að uppræta bakteríuna alveg úr lagnakerfi hússins. Þetta kemur fram á vef Reykjavíkurborgar. 

Verkfræðistofan Mannvit ber ábyrgð á framkvæmd og eftirliti þeirra aðgerða sem gripið verður til. Í þetta sinn verða fengnir aðrir verktakar til að sinna hreinsun á vatnslagnakerfi hússins og verður unnið samdægurs í öllu húsinu en ekki skipt á tvo daga eins og áður var gert. 

Framkvæmd hreinsunar verður fimmtudaginn 3.október. Matís kemur föstudaginn 4. október í sýnatöku svo hægt sé að staðfesta sem fyrst að aðgerðirnar hafi verið fullnægjandi

Bakterían smitast ekki milli manna en það mun taka um 10 daga að staðfesta að bakterían sé ekki lengur til staðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert