Framtíð Ísfisks í höndum Byggðastofnunar

Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri Akraneskaupstaðar.
Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri Akraneskaupstaðar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Stjórn Byggðastofnunar mun taka ákvörðun á fundi sínum um miðjan þennan mánuð um hvort stofnunin muni veita Ísfiski á Akranesi langtímafjármögnun. Verði svar Byggðastofnunar jákvætt verður unnt að afturkalla uppsagnir um það bil 50 starfsmanna sem fengu uppsagnarbréf í gær, en verði það neikvætt mun fólkið missa vinnuna og fyrirtækið hætta starfsemi.

Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri Akraneskaupstaðar segir í samtali við mbl.is að bæjarstjórnin öll hafi unnið að því af krafti undanfarnar vikur að tryggja fyrirtækinu langtímafjármögnun í gegnum Byggðastofnun. Hann segir það hafa verið mikil vonbrigði og áfall að fyrirtækið hafi neyðst til þess að senda starfsfólki sínu uppsagnarbréf.

„Sú beiðni, samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum, verður tekin fyrir í stjórn Byggðastofnunar um miðjan þennan mánuð. Við erum að vonast til þess að þessar uppsagnir verði dregnar til baka, en það er mjög súrt að horfa til þess að fólkið hafi þurft að fá uppsagnarbréf og að fyrirtæki sem hefur verið í rekstri í tugi ára og er að ganga ágætlega en hefur ekki langtímafjármögnun þurfi að grípa til þessara aðgerða. Við erum að vonast til þess að þetta verði leyst innan tveggja vikna,“ segir Sævar í samtali við mbl.is.

Hlutverk Byggðastofnunar að grípa inn í

Sævar segist vongóður um að Byggðastofnun hlaupi undir bagga með Ísfiski, enda sé það í góðu samræmi við hlutverk stofnunarinnar. „Þetta er fyrirtæki sem er að mínu mati lífvænlegt hafi það langtímafjármögnun og ég vona að Byggðastofnun sjái það sömu augun, til þess er Byggðastofnun, að grípa inn í svona mál,“ segir bæjarstjórinn.

Albert Sævarsson framkvæmdatjóri Ísfisks lýsti því einnig í samtali við mbl.is í gær að hann væri vongóður um að fjármögnun fengist, en gerði þó ekki ráð fyrir neinu.

Hlutverk Byggðastofnunar er að „efla byggð og atvinnulíf með sérstakri áherslu á jöfnun tækifæra allra landsmanna til atvinnu og búsetu,“ samkvæmt því sem fram kemur á vef stofnunarinnar. Þar er einnig tiltekið að í samræmi við þetta hlutverk veiti stofnunin lán og fjármagni verkefni, meðal annars til að koma í veg fyrir að treysta byggð, efla atvinnu og óæskileg byggðaröskun eigi sér stað.

Ríflega 7.500 manns búa á Akranesi í dag og þar af eru um 4.700 manns á atvinnuþátttökualdri. Aðspurður segir Sævar að á milli 15-16% þeirra sæki vinnu á höfuðborgarsvæðið og um 18% starfi á Grundartangasvæðinu, samanlagt um 1.500 manns.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert