„Fór eins vel og hægt var“

Hjúkrunarheimilið Droplaugarstaðir.
Hjúkrunarheimilið Droplaugarstaðir. mbl.is/Arnaldur Halldórsson

Forstöðukona Droplaugarstaða segir enga aðra íbúa heimilisins hafa greinst með hermannaveiki. Hreinsun á vatnslagnakerfi hússins fer fram á morgun og hafa aðrir verktakar verið fengir til að sjá um hreinsunina. 

„Það verða allt aðrir aðilar sem hreinsa þetta núna. Það er í rauninni Mannvit sem sér um þetta og þeir fengu nýjan verktaka að borðinu núna við hreinsunina. Aðferðirnar sem notaðar voru síðast virðast ekki hafa dugað og við vildum fá annan aðila að borðinu. Við getum samt ekki sagt að hitt hafi ekki verið nægilega vel gert, við vitum það hreinlega ekki,“ segir Jórunn Frímannsdóttir, forstöðukona Droplaugarstaða. 

Íbúi Droplaugarstaða greindist með hermannaveiki fyrir sex vikum. Ekki hefur náðst að uppræta bakteríuna, en í kjölfar hreinsunarinnar á vatnslagnakerfi á morgun mun Matís taka sýni úr vatnslögnum hússins og staðfesta að aðgerðirnar hafi verið fullnægjandi. Her­manna­veik­in eða Leg­i­o­nell-bakt­erí­an lif­ir í vatns­lagna­kerf­um. 

Jórunn Frímannsdóttir, forstöðukona Droplaugarstaða.
Jórunn Frímannsdóttir, forstöðukona Droplaugarstaða.

Jórunn segir að hreinsunin feli ekki í sér röskun að nokkru leyti fyrir íbúa Droplaugarstaða, en þar búa rúmlega 80 einstaklingar sem þurfa daglega á hjúkrun og aðhlynningu að halda. 

Þá segir Jórunn að enginn annar hafi smitast af bakteríunni, en íbúinn sem greindist náði fljótt bata. 

„Enginn annar hefur smitast að okkur vitandi og það hefur gengið vel að passa fólkið okkar.  Ástæðan fyrir því að farið er að skoða lagnakerfið hjá okkur er að það greinist hérna einstaklingur með hermannaveiki uppi á Landspítala og þá er farið að leita að því hvaðan sýkingin kemur og þá finnst þetta hérna,“ segir Jórunn. 

„Auðvitað er það mjög neikvætt að manneskjan skyldi hafa sýkst af hermannaveiki en sem betur fer jafnaði hann sig og réð við þetta og við vitum þá og getum upprætt kerfið okkar, sem við annars hefðum ekki vitað af. 

„Þetta fór eins vel og hægt var miðað við það að veikin skyldi koma upp, ef maður reynir að orða þetta með fallegum hætti,“ segir Jórunn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert