„Fólk er að velja sér þetta af því að þetta er umhverfisvænt,“ segir Karen Ósk Gylfadóttir, markaðsstjóri Nova, um vinsældir rafskútna sem má sjá víða á göngustígum, margir hugsi þær sem sinn aðalferðamáta. Um helgina opnaði leiga með slíkum tækjum og það voru ekki síður Íslendingar en ferðamenn sem nýttu sér rafskúturnar.
Íslendingar láta ekki að sér hæða þegar ný æði grípa um sig og rafskútur eða rafmagnshlaupahjól hafa selst upp bæði hjá Elko og Nova, hjá helstu söluaðilum, að undanförnu og gera má ráð fyrir að um þúsund slík farartæki séu komin á gangstígana. Þá eru stórir vinnustaðir á borð við Landspítalann farnir að nýta sér tæknina bæði til að ferðast innanhúss og á milli bygginga.
Í myndskeiðinu er rætt við Karen en Nova tekur þátt í rekstri rafskútuleigunnar Hopp sem opnaði á föstudag.
Þá er rætt við Guðbrand Sigurðsson hjá umferðardeild lögreglunnar, en að hans sögn er þessi nýi fararskjóti landsmanna síður en svo að skapa vandamál á gangstígunum.
Samgöngustofa gaf á dögunum út eftirfarandi leiðbeiningar um notkun tækjanna:
Vélknúin hlaupahjól tilheyra flokki reiðhjóla og eru hönnuð til aksturs á hraða frá 6 km á klst. upp í 25 km á klst. Í umferðarlögum kemur fram að slíkum farartækjum megi þó ekki aka á akbraut en þau lúta að öðru leyti sömu reglum og reiðhjól t.d. hvað varðar öryggisbúnað og mikilvæg atriði sem vert er að hafa í huga þegar hjólað er á gangstígum.