Flugumferðarstjórinn Guðmundur Karl Einarsson heldur úti vefsíðunni kirkjuklukkur.is þar sem hann skráir upplýsingar um kirkjuklukkur á Íslandi og heldur ómi þeirra til haga. Verkefnið er unnið í samráði við Biskupsstofu og með samþykki biskups Íslands. Frá 2013 hefur hann skrifað um klukkur í 65 af 377 kirkjum landsins.
Eftir fermingu sinnti Guðmundur æskulýðsstarfi við Digraneskirkju í Kópavogi. Þar eru engar klukkur og hann fékk þá hugmynd að fá upptöku Ríkisútvarpsins af klukknahljómi Dómkirkjunnar og hringja þannig inn jólin í Digraneskirkju. „Við gerðum þetta nokkur jól í röð, settum upp hátalara úti og inni í kirkjunni, og í kjölfarið kviknaði þessi hugmynd að safna saman klukknahljómi í kirkjum landsins.“
Agnes Sigurðardóttir, biskup Íslands, veitti samþykki sitt fyrir verkefninu. Í fyrstu fékk Guðmundur upptökur, sem Ríkisútvarpið átti, og síðan hefur hann notað hvert tækifæri til þess að taka upp óminn í kirkjum landsins og skrá upplýsingar um klukkurnar. „Ég nýti fjölskyldufríin til þess að heimsækja kirkjur þar sem ég er hverju sinni.“
Sjá samtal við Guðmund Karl í heild á baksíðu Morgunblaðsis í dag.