Samkeppni um BSÍ-reit á næstu vikum

Samgöngumiðstöðin verður ein lykilstoppistöðva borgarlínu og mun að öllum líkindum …
Samgöngumiðstöðin verður ein lykilstoppistöðva borgarlínu og mun að öllum líkindum taka við af Hlemmi sem miðpunktur almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Boðað verður til skipulagssamkeppni um umferðarmiðstöð á BSÍ-reit á næstu vikum og standa vonir til að niðurstöður hennar liggi fyrir næsta vor. Þetta kom fram á fundi Dags B. Eggertssonar borgarstjóra með Samfylkingarfélaginu í Reykjavík í kvöld, þar sem nýundirritaður samgöngusáttmáli var kynntur.

„Það er von mín að samgöngumiðstöðin komi nægilega snemma til að tengjast við borgarlínu og aðrar framkvæmdir á svæðinu,“ segir Dagur í samtali við mbl.is. Gert er ráð fyrir að þriðji áfangi borgarlínu, frá Mjódd að BSÍ, komi til framkvæmda árið 2024 og ljúki 2026, og segir Dagur það vera kappsmál að ný umferðarmiðstöð komi nægilega snemma til að tengjast henni.

„Framtíðarsýnin um nýja og betri umferðarmiðstöð er að hún verði ákveðið hjarta í umferðarkerfinu á þessu svæði og taki að hluta til við af Hlemmi, sem verði þó áfram mikilvæg skiptistöð,“ segir Dagur.

Þar verði, auk borgarlínustopps, skiptistöð fyrir rútur utan af landsbyggðinni, góðar og öflugar hjólaleigur, deilibílar og jafnvel rafskútur. „Alls konar örflæði sem er hægt að nota bæði sem tengingu inn í miðborgina, en líka fyrir þessa stóru vinnustaði, Landspítala, Háskólann og HR.“ 

Vitað sé að stóran hluta umferðarþungans megi rekja til þessara þriggja vinnustaða og því skipti miklu að gefa fólki kost á að komast með öðrum leiðum til vinnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka