Úrskurðaður í nálgunarbann gagnvart pilti

Landsréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms um nálgunarbann til þriggja mánaða.
Landsréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms um nálgunarbann til þriggja mánaða. mbl.is/Hanna

Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Vesturlands þess efnis að karlmaður skuli sæta nálgunarbanni gagnvart ólögráða pilti næstu þrjá mánuði. Báðir foreldrar piltsins óskuðu eftir því við lögreglu að maðurinn yrði settur í nálgunarbann gagnvart syni þeirra snemma í septembermánuði, en kynni tókust með manninum og piltinum er maðurinn dvaldi um skeið á lögheimili piltsins.

Samkvæmt því sem fram kemur í greinargerð lögreglustjóra, sem vísað er til í úrskurði héraðsdóms, hafði pilturinn lýst því að í fyrstu hefði honum liðið vel í samskiptum við manninn, en að undanförnu hafi hann orðið fyrir skömmum og aðkasti af hans hálfu, sem væru meðal annars þess efnis að pilturinn ætti að segja tiltekna hluti við barnaverndaryfirvöld, sem eru með málefni og aðstæður piltsins til meðferðar.

Fram kemur í úrskurðinum að maðurinn hafi lagt hendur á piltinn, slegið hann með flötum lófa í andlit, og hótað honum frekari barsmíðum, auk þess að áreita hann ítrekað á samfélagsmiðlum, en þaðan hefur pilturinn reynt að útiloka manninn.

Þá segir í úrskurðinum að frá því í júlímánuði hafi lögregla í fjórgang þurft að hafa afskipti af málefnum piltsins vegna mannsins sem nú hefur verið úrskurðaður í nálgunarbann, meðal annars hafi maðurinn setið fyrir piltinum á almannafæri og gert tilraun til þess að færa hann á brott í bifreið sinni.

Manninum er bannað að koma í námunda við heimili beggja foreldra piltsins og auk þess bannað að veita honum eftirför, nálgast hann á almannafæri, á vinnustað hans eða skóla eða hafa samband við hann með nokkrum hætti þar til 13. desember næstkomandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert