Umsóknir um vernd hér á landi, hælisumsóknir, í september voru orðnar um 90 talsins sl. föstudag. Umsóknir um vernd í ár voru orðnar nálægt 610 talsins og september er stærsti mánuður þessa árs hvað varðar fjölda umsókna um vernd.
Samkvæmt yfirliti sem Útlendingastofnun birti 15. september bárust 77 umsóknir í mars og 78 umsóknir í ágúst sl. Fjöldi umsókna var alls 522 fyrstu átta mánuði ársins.
Írakar voru fjölmennastir einstakra þjóðerna sem sóttu hér um vernd og fyrstu átta mánuði ársins bárust 87 umsóknir. Írakar hafa undanfarin ár verið stærsti hópur umsækjenda sem ekki koma frá öruggum upprunaríkjum. Hröð forgangsmeðferð hefur verið viðhöfð vegna umsókna frá öruggum ríkjum og hefur þeim fækkað, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgublaðinu í dag.
Fyrstu átta mánuði ársins barst 61 umsókn um vernd frá Venesúelamönnum, þar af samtals 30 í júlí og ágúst. Þeim var öllum veitt vernd eða viðbótarvernd. Þórhildur sagði að umsóknirnar mætti rekja til ástandsins í Venesúela. Fjölgun umsókna þaðan væri ekki bundin við Ísland því nágrannalönd okkar hefðu einnig fundið fyrir fjölgun umsókna um vernd frá Venesúelamönnum.