Á fundi borgarráðs í dag var hart tekist á um nýjan samgöngusamkomulagi ríkisins og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, þá sérstaklega hvað varðar lagningu Borgarlínu.
Meirihlutinn, borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna fagna samkomulaginu en hið sama er ekki að segja um borgarráðsfulltrúa minnihlutans.
„Þetta er stærsta og grænasta uppbyggingaráætlun í samgöngumálum í sögu borgarinnar. Samkomulagið markar algjör tímamót í samgöngum, í samstarfi sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu en ekki síður í samstarfi sveitarfélaganna við ríkið“, segir í bókun meirihlutans um málið.
Samkomulagið er mjög viðamikið en það var undirritað í síðustu viku. Tekur það til uppbyggingar samgönguinnviða og almenningssamgangna á svæðinu næstu fimmtán árin.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja að „byrjað hafi verið á öfugum enda“ og því sé borgarlínan í raun á byrjunarreit. Segja þeir í sinni bókun að mikil greiningarvinna sé eftir.
„Síðast en ekki síst hefur ekki verið gert arðsemismat sem er grundvallarforsenda við ákvarðanatöku framkvæmda. Staðreyndin er sú að vinna við samgöngur undanfarin ár hefur einkennst af því að ráðamenn henda upp hugmyndum á hlaupum. Það er gert án þess að gera arðsemismat og forgangsraða.“
Gagnrýna fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sérstaklega fjármögnun verkefnisins en gert er ráð fyrir að fjárfest verði fyrir 120 milljarða króna. Ríkið muni leggja fram 45 milljarða, sveitarfélögin 15 milljarða og að sérstök fjármögnun, sem mun að öllum líkindum samanstanda af veggjöldum og sölu á ríkiseignum, standi undir 60 milljörðum.
„Ljóst er að 60 milljarðar verða innheimtir af íbúum höfuðborgarsvæðisins án þess að útfærsla gjaldtöku slíks höfuðborgarskatts liggi fyrir. Sú fjárhæð sem fyrirhugað er að taka úr vösum skattgreiðenda nemur sem samsvarar næstum því nýjum Landspítala. Mikilvægt er að komið verði í veg fyrir tvísköttun á íbúa, auknar álögur í formi veggjalda og að jafnræðis verði gætt í gjaldtöku meðal landsmanna“, segir í bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, gerði á fundinum alvarlegar athugasemdir við framkvæmd Borgarlínu.
„Verkefnið er allt í þoku, draumórum og óvissu. Fyrir það fyrsta er ekki hægt að binda hendur kjörinna fulltrúa í Reykjavík og fjárstjórnarvald þeirra næstu fjögur kjörtímabil með þeim fjárhagsskuldbindingum sem gert er ráð fyrir. Áður en samkomulagið er farið af stað þá er búið að búa til nýja stofnun – Verkefnastofu borgarlínu og nú þegar hafa verið ráðnir þrír einstaklingar til starfa“, segir í bókun Vigdísar.
„Í drögunum er fjallað um að stofna eigi nýtt félag á báðum stjórnsýslustigum, þ.e. ríkis og sveitarfélaganna. Það er fordæmalaust en er alveg sama uppskrift og ohf-un ríkisins og bs. félög sveitarfélaga, algjört svarthol sem tekur til sín mikið fjármagn sem enginn veit hvert fer. Aðkoma og eftirlitshlutverk kjörinna fulltrúa verður ekkert þar sem verið er að fara grísku leiðina. Þetta samkomulag er mjög vanhugsað og vantar allar útfærslur. Í stuttu máli þá er borgarlína fjárhagsleg martröð fyrir skattgreiðendur.“
Meirihlutinn var ekki sammála þessum fullyrðingum Vigdísar og lögðu borgarráðsfulltrúar hans fram gagnbókun við bókun Vigdísar.
„Borgarlína er afrakstur margra ára vinnu sérfræðinga, með aðkomu íbúafunda og kjörinna fulltrúa. Allar bæjarstjórnir í nágrenni Reykjavíkur eru einhuga um málið, enda um tímamótasamkomulag að ræða milli sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu eftir langt samráðsferli. Öll gögn málsins draga fram þá staðreynd að Borgarlína sé besta leiðin til að draga úr tafatíma í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu.“