Flestir viðskiptavinir upplýstir

Mælst er til þess að fólk á svæðinu sjóði drykkjarvatn.
Mælst er til þess að fólk á svæðinu sjóði drykkjarvatn. mbl.is/Ómar

Vel hefur gengið að gera viðskiptavinum Veitna viðvart um mögulega E.coli-mengun í vatnsbóli Veitna í Grábrókarhrauni. Þetta segir Ólöf Snæhólm Baldursdóttir, upplýsingafulltrúi Veitna. Hafa flestir tekið fréttunum með jafnaðargeði að sögn Ólafar. 

Óstaðfestur grunur um E.coli-mengun í vatnsbóli Veitna í Grá­brók­ar­hrauni kom í ljós við reglubundið eftirlit Heilbrigðiseftirlits Vesturlands. Sýni úr vatnsbólinu var tekið í gærmorgun. Vatnsbólið þjónar Borg­ar­nesi, Bif­röst og Varmalandi auk fjölda sum­ar­húsa og nokk­urra lög­býla í Borg­ar­f­irði.

Afleiðingar E.coli-mengunar í vatni geta verið mjög alvarlegar. „Eins og staðan er núna þá er þarna óstaðfestur grunur en E.coli-sýking getur verið mjög alvarleg. Hún getur valdið bráðum niðurgangi, magakveisum og jafnvel öðrum kvillum. Svona sýking getur haft mest áhrif á þá sem eru veikastir fyrir, börn gamalmenni og sjúklinga,“ segir Ólöf. 

Leita allra leiða 

Því ráðleggja Veitur sínum viðskiptavinum sem fá vatn úr vatnsbólinu að sjóða allt vatn þar til gengið hefur verið úr skugga um að óhætt sé að drekka það. 

Hvort raun­veru­leg meng­un er á ferðinni get­ur skýrst fyr­ir há­degi á morg­un, föstu­dag.

„Það hefur gengið mjög vel að gera viðskiptavinum viðvart. Við höfum notað allar leiðir sem við höfum, sent SMS á þá sem við höfum símanúmer hjá, við höfum sent tölvupósta, sett þetta í fjölmiðla, hringt í viðkvæmanotendur og notað allar leiðir til að koma þessum skilaboðum á framfæri,“ segir Ólöf. 

Enn er ekki vitað af neinum staðfestum tilfellum magakveisu. „Samkvæmt heilsugæslunni þá er ekki vitað um neitt,“ segir Ólöf. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert