Samgöngusáttmálinn, sem undirritaður var í síðustu viku, er afrakstur rúmlega ársvinnu sem hófst eftir að samgönguáætlun var lögð fram á þingi, þar sem höfuðborgarsvæðið var að mestu sniðgengið. Þá hafi sveitarfélögin barið í borðið og niðurstaðan það samkomulag sem nú liggur fyrir.
Þetta sagði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri á fundi Samfylkingarfélagsins í Reykjavík á Hótel Nordica í gær, þar sem nýundirritaður samgöngusáttmáli sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og ríkisins, var kynntur. „Ég held að árangurinn hafi komið mörgum á óvart,“ sagði Dagur á fundinum.
Dagur sagði forystumenn sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu hafa staðið frammi fyrir tveimur valkostum: annars vegar að krefjast þess af ríkinu að 90% alls framkvæmdafjár næstu 15 árin færu til höfuðborgarsvæðisins — sem ljóst mætti vera að fengist ekki samþykkt — eða hins vegar að sættast á að hluti þessara brýnu framkvæmda yrði fjármagnaður með veggjöldum. Síðari kosturinn hefði orðið fyrir valinu.
Áætlaður kostnaður við allar framkvæmdir samgöngusamkomulagsins, sem nær til 15 ára, er 120 milljarðar. Þar af leggja sveitarfélögin til 15 milljarða, ríkið 45 milljarða og afganginn, 60 milljarða, á að fjármagna sérstaklega, sennilega með veggjöldum.
Á fundinum sagði borgarstjóri það klókt hjá sveitarfélögunum að semja á þann veg og tryggja þannig að fé af veggjöldum á höfuðborgarsvæðinu renni til uppbyggingar á höfuðborgarsvæðinu.
„Við höfum séð það að eftir því sem umhverfisvænum bílum fjölgar þá eykst þörfin fyrir öðruvísi fjármögnun vegakerfisins en með bensíngjöldum,“ sagði Dagur. Þessu hafi samgöngu- og fjármálaráðuneytið áttað sig á, og því ekki ólíklegt að veggjaldaleið verði tekin upp á landsvísu. „Við hefðum getað setið uppi með veggjöld eftir nokkur ár, án þess að fá endilega nokkuð af þeim til uppbyggingar hér,“ sagði Dagur og benti á að um tveir þriðju hlutar bensíngjalda innheimtust á höfuðborgarsvæðinu, en framkvæmdafé hefði ekki skilað sér til svæðisins í sama hlutfalli.
Íbúum höfuðborgarsvæðisins mun fjölga um 70.000 á næstu 20 árum, og gera áætlanir ráð fyrir að verði ekkert að gert muni bílferðum á degi hverjum fjölga um 86.000 á höfuðborgarsvæðinu.
Til að koma í veg fyrir þá aukningu segir Dagur að nú hafi nú í fyrsta sinn náðst samkomulag milli sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um sameiginlega sýn í skipulagsmálum næstu áratugi, og markmiðið að hlutur ferða með einkabílum fari úr 76% niður í 64%. Með því fjölgi ferðum á dag um 15.000 á tímabilinu, eða 70.000 minna en ella.
Meðal þeirra sem hafa gagnrýnt samkomulagið eru Björn H. Sveinsson, formaður Samtaka um bíllausan lífsstíl, og Gísli Marteinn Baldursson, fyrrverandi borgarfulltrúi, sem telur samkomulagið í mótsögn við markmið þess og hefur bent á að milljörðum sé varið í aðgerðir sem eigi að bæta umferðarflæði. Þá séu engin plön um að draga úr bílaumferð, aðeins að hægja á aukningu, eins og komið var inn á hér að framan. Það segir Gísli það „metnaðarlausasta sem [hann hefur] séð koma frá nokkru höfuðborgarsvæði Evrópu síðustu ár“.
Spurður út í gagnrýnina, og hvort hann hefði sjálfur viljað sjá minni áherslu á vegaframkvæmdir í samkomulaginu, segir Dagur svo ekki vera. „Stóru tíðindin í þessu samkomulagi eru að óvissunni um borgarlínuna er eytt og hún er nú fullfjármögnuð. Raunar bætist við ný tenging upp á Keldnasvæðið og yfir í Mosfellsbæ. Ég er mjög sáttur við þá áherslu og sömuleiðis áherslu á hjólastígakerfið.“
Greint var frá því í Morgunblaðinu í fyrradag að aðeins væru tveir milljarðar áætlaðir í Sæbrautarstokk, sem er á samgönguáætlun, en ráðgert er að lokið verði við hann árið 2022. Á sama tíma sé gert ráð fyrir tuttugu milljörðum í stokk undir Miklubraut. Þorsteinn V. Hermannsson, samgöngustjóri borgarinnar, sagði í samtali við Morgunblaðið af sama tilefni að stokkurinn myndi sennilega kosta um 10 milljarða króna.
Spurður út í þetta segir Dagur að stokkurinn sé enn óútfærður og ekki hafi til að mynda verið tekin ákvörðun um lengd hans. Hann hafi komið inn í áætlunina í kjölfar skýrslu um valkosti við Sundabraut. „Það sem er sérstakt við Sæbrautarstokkinn er að hann kemur síðast inn í planið, og þar er mest vinna eftir. Tillaga Vegagerðarinnar var að miða [kostnaðinn] við tvo milljarða, en það getur breyst.“ Eftir stendur þó að gert er ráð fyrir að vinna við hann hefjist á þarnæsta ári og verði lokið ári síðar, árið 2022.
Sundabraut er ekki í samgöngusáttmála, en komið hefur fram í máli Sigurðar Inga Jóhannssonar samgönguráðherra að það þurfi ekki að þýða að ekki verði ráðist í framkvæmdir við hana á þeim 15 árum sem samgöngusáttmálinn gildir. Legið hefur fyrir síðan í nóvember í fyrra að Sundabraut væri ekki hluti af forgangsverkefnum sem sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu lögðu fram í fyrra. Meðal annars á eftir að ákveða legu Sundabrautar og hefur Sigurður Ingi sagst vilja skoða þá leið að reisa svokallaða lágbrú, sem væri ódýrari en jarðgöng og hefði einnig þann kost að nýtast fleiri samgöngumátum, svo sem gangandi og hjólandi.
Dagur bendir á að jarðgöng hafi verið nefnd sem fyrsti kostur í skýrslu um Sundabraut, sem gefin var út í júní, meðal annars þar sem talið væri að lágbrú gæti raskað starfsemi Sundahafnar. Það hafi enda verið stefna borgarinnar allt frá 2008 að jarðgöng væru fyrsti kostur. „Við höfum þó sagt það að við erum tilbúin að skoða þá kosti sem þar koma fram og ég á von á að við samgönguráðherra hittumst á næstunni til þess að ákveða hvernig verður haldið á þeirri vinnu.“