„Þetta hús gjörbreytir allri aðstöðu við völlinn, bæði tengt æfingum og leikjum,“ segir Bjartur Aðalbjörnsson, fyrirliði karlaliðs Einherja í knattspyrnu.
Nú er verið að byggja nýtt vallarhús við knattspyrnuvöllinn á Vopnafirði. Þegar það er risið verður í fyrsta sinn í 45 ára sögu Einherja hægt að fara í sturtu við völlinn.
„Alla tíð manns hjá Einherja hefur verið notast við búningsklefa í íþróttahúsinu. Svo hefur maður annaðhvort þurft að hlaupa upp á völl eins og gert var í yngri flokkunum eða keyra upp á völl í fullum skrúða. Aðkomumönnum finnst þetta mjög sérstakt,“ segir Bjartur. Á árum áður, áður en íþróttahús var byggt við skólann í bænum, var þó aðstaðan enn frumstæðari. „Þá notuðust meistaraflokkarnir við búningsklefa í frystihúsinu fyrir leiki. Þetta hefur verið löng bið. Nú fáum við loksins klefastemningu hjá félaginu,“ segir hann.
Þór Steinarsson sveitarstjóri segir í samtali við Morgunblaðið að byggingu vallarhússins verði lokið næsta vor. Kostnaður liggi ekki fyrir en ljóst sé að hann hlaupi á tugum milljóna. Hluti framkvæmdarinnar er fjármagnaður með styrk úr mannvirkjasjóði KSÍ. „Þetta hefur verið lengi í undirbúningi. Fótboltinn á Vopnafirði er gríðarlega öflugur og það er góð mæting á leiki allra liða. Það þarf að hlúa að þessu starfi,“ segir Þór.
Bjartur segir að nýja húsið uppfylli allar kröfur KSÍ. Þar verða búningsklefar fyrir bæði lið, dómaraaðstaða, geymsluaðstaða, salerni fyrir áhorfendur og lítil félagsaðstaða. Hann vonast til að gamall hvítur kofi sem notaður hefur verið sem vallarhús fái að standa áfram. „Hann á sér svo merka sögu. Þetta er gamla flugskýlið á Vopnafirði sem var fært og notað sem vallarhús. Nýjustu hugmyndir eru að breyta kofanum í safn, svipað og Valsmenn gerðu með Fjósið.“