Grunur er um e-coli-mengun í neysluvatni frá vatnsbóli Veitna í Grábrókarhrauni. Vatnsbólið þjónar Borgarnesi, Bifröst og Varmalandi auk fjölda sumarhúsa og nokkurra lögbýla í Borgarfirði. Hvort raunveruleg mengun er á ferðinni getur skýrst fyrir hádegi á morgun, föstudag.
„Þótt aðeins sé um grun að ræða mælast Veitur til þess að notendur á þessu svæði sjóði neysluvatn í öryggisskyni þangað til önnur tilmæli berast. Sjóða þarf neysluvatn í að minnsta kosti eina mínútu,“ segir í tilkynningu frá Veitum.
Fram kemur, að sýnið, sem grunurinn beinist að, hafi verið tekið við reglubundna sýnatöku að morgni miðvikudagsins 2. október. Dæmi séu um rangar vísbendingar af slíkum sýnum. Niðurstaðna rannsókna Heilbrigðiseftirlits Vesturlands á sýninu sé að vænta fyrir hádegi á morgun. Þær niðurstöður geti annars vegar eytt öllum grunsemdum um mengun í vatninu eða styrkt gruninn. Í því tilviki munu niðurstöður endurtekinnar sýnatöku liggja fyrir á sunnudag.
„E-coli gerlamengun er alvarleg og getur valdið slæmum sýkingum hjá fólki, einkum þeim sem eru viðkvæm fyrir, þar með talin eru börn og gamalmenni. Því er áríðandi að farið sé að tilmælum um suðu á neysluvatni. Samkvæmt upplýsingum frá Heilsugæslunni í Borgarnesi er ekki vitað af neinum staðfestum tilfellum af magakveisu.
Starfsfólk Veitna vinnur nú að því að gera öllum viðskiptavinum viðvart, sérstaklega viðkvæmum notendum.
Ítrekað skal að um óstaðfestan grun er að ræða en í ljósi þess hve afleiðingar slíkrar mengunar geta verið alvarlegar þykir Veitum rétt að ráðleggja fólki að sjóða neysluvatn þar til frekari niðurstöður liggja fyrir,“ segir í tilkynningunni.