Tæplega 1.000 hafa sagt sig úr þjóðkirkjunni undanfarna tíu mánuði. Það jafngildir því að þrír hafi sagt sig úr kirkjunni á hverjum einasta degi á þessu tímabili. Nú eru 231.684 skráðir í þjóðkirkjuna, sem eru 64% Íslendinga, og hefur þeim fækkað um rúmlega 3.400 frá 1. desember 2017. Biskup Íslands hefur ekki áhyggjur af þessum úrskráningum; það sem mestu máli skipti sé andlegt trúarlíf almennings.
Frá 1. desember í fyrra til 1. október í ár fjölgaði í kaþólska söfnuðinum um 469 manns, sem nemur 3,4% fjölgun og í Siðmennt fjölgaði um 454 manns sem eru 16,1%. Þá var 5,1% aukning í Ásatrúarfélaginu þar sem fjölgaði um 228 manns.
Þetta kemur fram á vef Þjóðskrár Íslands.
Í skriflegu svari Péturs Markan samskiptastjóra Biskupsstofu við fyrirspurn mbl.is, þar sem m.a. var spurt um hvort þar væru áhyggjur af þessari þróun og hver ástæða þessara úrsagna gæti verið segir að skráningar í og úr þjóðkirkjunni haldi sama takti og umræðan um kirkjuna sé hverju sinni. „Ef ímynd kirkjunnar laskast, þá hefur það áhrif á afstöðu fólks til kirkjunnar sem birtist meðal annars í úrskráningum,“ segir í svarinu.
„Biskup Íslands hefur ekki áhyggjur af úrskráningum úr þjóðkirkjunni. Biskupi [er] fyrst og fremst umhugað um einlægt andlegt trúarlíf almennings, velferð og sálgsælu [sic], sem hverjum og einum einstakling[i] er mest mikilvægt,“ segir þar enn fremur.
Í svarinu segir að kirkjan mismuni ekki fólki sem til hennar leiti á grundvelli þess hvort það sé skráð í kirkjuna eða ekki. Skráning í þjóðkirkjuna endurspegli ekki minnkandi þjónustu eða spurn eftir henni. „Almenningur leitar meira eftir þjónustu kirkjunnar frá ári til árs.“
Í svari Biskupsstofu segir einnig að ekki þýði að ræða úrsagnir úr kirkjunni án þess að ræða þau erfiðu mál sem upp hafa komið innan hennar og haft mikil áhrif á afstöðu fólks til kirkjunnar. „Hugur biskups Íslands er fyrst og fremst hjá þeim [sem] þurft að hafa [sic] þola ofbeldi. Um þau mál er eitt að segja. Kirkjan hefur verið að bæta sig til muna og kirkjan mun aldrei una sé[r] hvíldar í þeirri vegferð að bæta stöðugt alla verkferla, siðareglur, starfsreglur og samskiptareglur - síðast en ekki síst viðhorf, ást og umhyggju sem ofbeldisþolar eiga skilið skilyrðislaust. Þjóðkirkjan segir fokk ofbeldi,“ segir í svarinu.
Í fyrirspurn mbl.is var spurt hvort úrsagnir hefðu aukist í kjölfar umæla biskups Íslands um þungunarrofsfrumvarpið í vor. Í svarinu segir að þjóðkirkjan hafi ekki mælingar á skráningum í kringum einstaka umræðu.