Minjastofnun er að undirbúa friðlýsingu elstu skólahúsanna á Bifröst í Borgarfirði. Rektor Háskólans á Bifröst og byggðarráði Borgarbyggðar líst vel á áformin en leggja áherslu á að húsin nýtist áfram til starfsemi skólans og að fjármunir fylgi til þess að unnt verði að halda mannvirkjunum við.
Minjastofnun hefur sent drög að friðlýsingarskilmálum til Háskólans á Bifröst og Borgarbyggðar til umsagnar. Undirbúningur hefur staðið lengi. Hann hófst með því að hópur gamalla Bifrestinga úr Hollvinasamtökum Bifrastar óskuðu eftir því að Minjastofnun friðlýsti gömlu skólahúsin.
Í drögum að friðlýsingarskilmálum kemur fram að friðlýsingin á að taka til ytra byrðis samkomuhússins frá 1950 og veggfastra innréttinga í samkomusal og setustofu. Einnig ytra byrðis viðbyggðrar gistiálmu frá 1955 og tengigangs. Sérstaklega er tekið fram að friðlýsingin taki til veggmyndar Harðar Ágústssonar á tengigangi. Ekki er minnst á SÍS-merkið á gólfi inngangs en það fylgir væntanlega með.
Innréttingar í gistiálmu eru ekki friðaðar enda segir Vilhjálmur Egilsson, rektor Háskólans á Bifröst í umfjöllun um friðunaráformin í Morgunblaðinu í dag, að þeim gæti þurft að breyta með tímanum ef nýta eigi bygginguna áfram. Tekur hann fram að SÍS-merkið sé órjúfanlegur hluti af sögu húsanna og aldrei verði hróflað við því.