Gríðarlegar brotalamir einkenndu vinnubrögð lögreglu í máli Maríu Sjafnar Árnadóttur lögfræðings, sem í desember 2017 kærði tvær líkamsárásir og hefndarklámshótun af hendi fyrrverandi maka.
Málið var á endanum fellt niður. Þegar lögreglan neitaði Maríu um gögn kvartaði hún til ríkissaksóknara, sem leiðrétti málið og lét hana hafa gögnin. Í kjölfarið fékk hún viðbótargreinargerðarfrest til að skila kæru út af niðurfellingu málsins. Eftir að hafa tekið málið fyrir fann ríkissaksóknari verulega að málsmeðferð lögreglu, segir María í samtali við Morgunblaðið. Hún segir bréf ríkissaksóknara um málsmeðferðina áfellisdóm yfir vinnubrögðum lögreglu. Þá segir hún að á næstu dögum verði kæra send til Mannréttindadómstóls Evrópu vegna málsins.
Hildi Fjólu Antonsdóttur réttarfélagsfræðingi var af stýrihópi forsætisráðuneytis um úrbætur í kynferðisbrotamálum falið að vinna skýrslu um stöðu brotaþola á Íslandi í samanburði við önnur Norðurlandaríki og gera tillögur um úrbætur. Í skýrslunni, sem hún skilaði í sumar, lagði hún m.a. til að brotaþoli hefði aukna aðkomu að rannsókn máls og nyti sömu réttinda og aðili.
María og Hildur segja mál Maríu vera gott dæmi um þau áhrif sem breytingatillögur í takt við þær sem Hildur Fjóla Antonsdóttir vann og liggja nú fyrir réttarfarsnefnd gætu haft, en sökum þess að hún hafi ekki notið aðildarstöðu í máli vegna brota á henni hafi henni aldrei gefist kostur á að kæra málsmeðferðina á rannsóknarstigi eða koma sjónarmiðum sínum að.
Mál Maríu Sjafnar er þannig vaxið að 1. desember 2017 kærði hún tvær líkamsárásir og hefndarklámshótun til lögreglu, en þá var um mánuður þar til annað ofbeldisbrotanna fyrndist. Útskýrir María að öfugt við það sem margir telji rjúfi kæra til lögreglu ekki fyrningarfrest. Það gerist þegar sakborningi sé kynnt sakarefnið. Þar sem sakborningi var ekki kynnt sakarefnið í tæka tíð – það hafi verið gert í ágúst 2018 – hafi seinagangur lögreglu orðið til þess að tveir af þremur kæruliðum fyrndust meðan á rannsókn málsins stóð.
Á rannsóknartímanum reyndi María ítrekað að koma sjónarmiðum sínum að og óskaði eftir gögnum um rannsóknina en án árangurs. Hinn 23. apríl síðastliðinn fékk hún síðan stutt bréf frá lögreglu þar sem henni var tilkynnt að málið væri fellt niður.
„Ég reyndi hvað ég gat að senda pósta á rannsóknarlögreglu,“ segir María, en þar sem hún hafi haft lagaþekkingu hafi hún stöðugt reynt að minna á formreglurnar sem máli skiptu. Lögregla ræddi í fyrsta skipti við kærða um níu mánuðum eftir að María kærði brotin, þ.e. í ágúst 2018. Segist María vitanlega hafa talið að kærða hlyti að hafa verið birt sakarefnið áður, til að rjúfa fyrningarfrestinn, en svo var ekki. Hafi það haft ofannefndar afleiðingar, brotin fyrndust.
María segir að það sé alvarlegt í málinu að brotin hafi fyrnst í fórum lögreglu, en það sem kannski sé alvarlegast sé að lögregla hafi svo reynt að hylma yfir að brotin væru fyrnd. Lögregla hafi ekki tilgreint það í ofannefndu niðurfellingabréfi né látið réttargæslulögmann eða kæranda vita af því. Í bréfinu hafi einungis sagt að málið þætti ekki nægilega líklegt til sakfellingar.
Á meðal sönnunargagna voru játning geranda í smáskilaboðum, ljósmyndir af áverkum sem spegluðu áverkavottorð og bein og óbein vitni, segir María í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.