Kolbeinn Óttarsson Proppé, varaformaður þingflokks Vinstri grænna, segist hafa „miklar áhyggjur“ af þeim tíðindum sem reglulega berast af umsvifum erlendra hersveita hér við land.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir hann nú brýna þörf á umræðu inni á Alþingi um veru Íslands í Atlantshafsbandalaginu (NATO) og reglulega viðveru erlendra hersveita á Íslandi.
„Uppbyggingin eins og hún er núna er ekki síst vegna fyrri skuldbindinga annarra ríkisstjórna,“ segir Kolbeinn í samtali við Morgunblaðið og heldur áfram: „Þingið hefur ekki fengið að fjalla um þetta af neinu viti frá því að varnarsamningurinn var samþykktur árið 1951. NATO var stofnað í allt öðru umhverfi en nú er uppi og við verðum að geta sýnt þá hugsjón að detta ekki ofan í gamla kaldastríðsfarið.“
Herskip úr 2. flota Bandaríkjanna, Atlantshafsflotanum, hefur verið við æfingar á Norður-Atlantshafi að undanförnu. Til stuðnings henni var sett upp tímabundin aðgerðastjórn á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli og var henni komið fyrir í flugskýli þar í september.