Fyrsta snakkið úr íslenskum kartöflum

Viðar Reynisson snakkframleiðandi að steikja kartöfluflögur.
Viðar Reynisson snakkframleiðandi að steikja kartöfluflögur. Ljósmynd/Aðsend

„Hugmyndin kviknaði fyrir mörgum árum. Fjölskyldan mín á sumarbústað á Hornafirði þar sem mikið er ræktað af kartöflum. Ég sá hvað það var mikið magn af kartöflum sem voru teknar til hliðar og fóru ekki í sölu því þær þykja ekki nógu fallegar. Ég komst að því að það var enginn að búa til snakk úr íslenskum kartöflum og þannig kviknaði hugmyndin,“ segir Viðar Reynisson snakkframleiðandi um Ljótu kartöflurnar sem eru fyrstu flögurnar úr íslenskum kartöflum. 

Á næstu dögum geta neytendur nálgast fyrstu flögurnar úr íslenskum kartöflum, Ljótu kartöflurnar, því framleiðslan á þeim er hafin og þær koma brátt í búðir. Ferlið við að framleiða snakk úr ljótum íslenskum kartöflum hefur ekki verið einfalt, en skemmtilegt og lærdómsríkt, sérstaklega þegar afrakstur erfiðisins lítur dagsins ljós, að sögn Viðars.   

„Það voru margir sem reyndu að tala um fyrir mér því íslenskar kartöflur þykja alls ekki heppilegar til snakkframleiðslu. Það er mikið af sykrum í þeim sem veldur því að erfitt er að steikja þær án þess að brenna þær. En við höfum þróað aðferð til að það heppnist,“ segir Viðar. Af þessum ummælum að dæma má ætla að hann búi yfir talsverðri seiglu því hugmyndin er orðin að veruleika. 

Þess má geta að verkefnið hlaut viður­kenn­ing­u sem áhuga­verðasti Mat­ar­sprotinn árið 2017. 

„Með innlendri framleiðslu er minna kolefnisfótspor. Við vinnum gegn matarsóun og í öllum ákvörðunum vega umhverfissjónarmið þungt. Við reynum að vera umhverfisvæn eins og við getum. Við ákváðum að nota ekki hefðbundna snakkpoka sem er blanda af áli og plasti sem eingöngu er hægt að brenna. Við völdum því skásta kostinn sem er að nota hreint plast sem hægt er að endurvinna endalaust. Því miður er engin önnur lausn í boði. Við ætluðum að vera með pappaumbúðir en þá yrði líftíminn um tvær vikur og það gengur ekki,“ segir Viðar. 

Til að byrja með verður snakkið framleitt með salt og pipar en stefnt er að því að bæta við fleiri bragðtegundum. Áætluð framleiðsla er um 1000 pokar á vikum. Næringarinnihaldið er á pari við aðrar kartöflulögur. „Mesti hausverkurinn var að reyna að ná niður fitunni,“ segir hann og bætir „við vonandi náum við að anna eftirspurninni.“

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert