„Ofboðslega ánægð með þessa framkvæmd“

Niðurstaða sýna sem kannar hvort hermannaveiki sé enn til staðar …
Niðurstaða sýna sem kannar hvort hermannaveiki sé enn til staðar liggur fyrir eftir 10 daga. mbl.is/Golli

„Þetta hefur gengið mjög vel. Við erum ofboðslega ánægð með þessa framkvæmd. Hún var gerð af mikilli fagmennsku,“ segir Jórunn Frímannsdóttir, forstöðukona Droplaugarstaða, um hreinsun á öllu vatnslagnakerfi hússins sem fram fór í gær eftir að íbúi greindist með hermannaveiki í ágúst.  

Þetta var í annað skipti sem vatnslagnakerfi hússins var hreinsað en ekki náðist að uppræta bakteríuna í fyrra skiptið þegar hreinsunin fór fram. Ákveðið var að fá aðra verktaka til verksins í samvinnu við Mannvit verkfræðistofu sem sér um verkið. Í gær var allt vatnslagnakerfið hreinsað í einu en ekki skipt niður á tvo daga eins og síðast.

Eftir hádegi í dag taka fulltrúar Matís 10 sýni víða um húsið til að kanna hvort náðst hafi að hreinsa allt vatnslagnakerfið. Síðast voru 8 sýni tekin. Her­manna­veik­in eða Leg­i­o­nell-bakt­erí­an lif­ir í vatns­lagna­kerf­um og getur hún hreiðrað um sig þar þegar vatn er lítið notað.

Í þessum framkvæmdum var ákveðið að loka tímabundið einu baðherbergi á 4. hæð. Það verður opnað aftur þegar búið verður að skipta um sturtuhaus en sambærilegur sturtuhaus fæst ekki á landinu eins og stendur. Til að reyna að koma í veg fyrir að hermannaveikin komi ekki upp aftur var hringrásarkerfi vatnsins á 4. hæð í húsinu bætt.  

Íbúinn sem greindist með hermannaveikina hefur náð sér að fullu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert