„Þetta er í takt við væntingar,“ segir Bjarnfreður Ólafsson, lögmaður fjögurra liðsmanna hljómsveitarinnar Sigur Rósar. Máli héraðssaksónara á hendur þeim var vísað frá dómi í morgun en þeir voru sakaðir um stórfelld skattsvik.
Fyrst var greint frá málinu á vef Fréttablaðsins.
Tónlistarmennirnir Jón Þór Birgisson, Kjartan Sveinsson, Georg Hólm og Orri Páll Dýrason voru grunaðir um að hafa komist hjá því að greiða ríflega 150 milljónir króna í skatt. Auk þeirra var endurskoðandi hljómsveitarinnar ákærður.
Héraðssaksóknari hefur kært niðurstöðuna til Landsréttar.
Bjarnfreður segir að dómurinn taki undir með málflutningi hans frá því í héraðsdómi um miðjan september. Þá sagði lögmaðurinn að um væri að ræða tvöfalda refsingu og þrefalda málsmeðferð.
Bjarnfreður sagði meðal annars fyrir héraði að íslenska ríkið hefði á undanförnum árum hlotið áfellisdóma hjá MDE fyrir slík mál og nefndi í því samhengi mál Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Tryggva Jónssonar gegn ríkinu.