Viðbrögð Wizz Air segja mikið um félagið

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, hvetur farþegana til þess að setja …
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, hvetur farþegana til þess að setja sig í samband við samtökin. mbl.is/Sigurður Bogi

„Veður er eitthvað sem við ráðum ekki við hérna á Íslandi en við ráðum viðbrögðum okkar við því. Viðbrögð fyrirtækja við því að lenda í svona veðri segja mikið um starfsemina og um það hversu annt þeim er um viðskiptavini og neytendur,“ segir Breki Karlsson formaður Neytendasamtakanna. 

Tvær vélar Wizz Air frá Kraká lentu á Eg­ilsstaðaflug­velli í gær vegna veðurs en vél­arn­ar áttu að lenda á Kefla­vík­ur­flug­velli. Farþegar höfðu tvo valkosti, að fara út á Egilsstöðum eða fljúga aftur til Krakár. Farþegum sem ákváðu að fara út á Eg­ilsstaðaflug­velli var gert að skrifa und­ir plagg þar sem þeir af­söluðu sér rétti sín­um til bóta, ella yrði brott­för þeirra til­kynnt sem ör­ygg­is­brot.

Breki segir að þarna sé þrýstingi beitt á farþega og því standist plaggið varla sem farþegar skrifuðu undir. 

„Það er helst að líta á það að manni sýnist einhverjir hafa verið látnir skrifa undir eitthvað undir þrýstingi og það stenst ekkert.“

Á plagg­inu sem farþegar skrifuðu undir seg­ir: „Ég staðfesti hér með að það er mín ákvörðun að yf­ir­gefa flug­ferð mína með of­an­greindu flugi og ég dreg mig út úr samn­ingi við Wizz Air sem laut að því að koma mér á upp­haf­lega staðsetn­ingu.“

Svona aðstæður venjulega ekkert mál

Engin kvörtun hefur borist Neytendasamtökunum vegna atviksins hingað til. Breki segir að erfitt sé að greina aðstæður fyllilega nema með því að rannsaka slíka kvörtun ofan í kjölinn.

„Við hvetjum alla sem lent hafa í svona aðstæðum til þess að hafa samband við okkur og við munum skoða hvert mál fyrir sig.“

Breki bendir á að þetta sé ekki í fyrsta skipti sem flugvélar þurfi að lenda annars staðar en upphaflega stóð til vegna veðurs. Viðbrögð sem þau frá Wizz Air eru þó sjaldséð, að sögn Breka.

„Það hefur komið fyrir oft og mörgum sinnum á Íslandi að flugvélar hafi þurft að lenda annars staðar en upphaflega stóð til. Mig minnir að það hafi bara verið leyst með því að fólk hafi verið sent með rútum á milli landshluta og ég man ekki til þess að það hafi verið neitt mál.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert